Bæta þarf merkingar allar við Stórurð til muna

Þó þrjú og hálft ár séu liðin síðan náttúruvættið Stórurð og næsta nágrenni voru formlega friðlýst sem landslagsverndarsvæði vantar enn töluvert upp á að göngufólk á þessum slóðum átti sig á að svæðið sé friðlýst og hvað megi og hvað ekki sökum þess. Bæta þarf upplýsingagjöf töluvert.

Þetta er meðal þess sem landverðir á Víknaslóðum og við Stórurð taka sérstaklega fram í ársskýrslu sinni eftir annasamt sumar á þessari sífellt vinsælla göngusvæði.

Í skýrslunni er farið yfir hvað landverðirnir hafi aðhafst í sumar og hvaða úrbætur séu hvað mikilvægastar að þeirra mati til að svæðið geti áfram tekið við þúsundum göngufólks án þess að óafturkræfan skaða beri af.

Gestafjöldinn er reyndar önnur athugasemd sem landverðirnir koma á framfæri í skýrslu sinni því þótt talningar eigi sér að hluta til stað og þær tölur sýni að ferðamannafjöldinn að Stórurð hafi verið milli 50 til 60 þúsund manns árlega vanti mun nákvæmari talningar enda hafi gestafjöldinn aukist ár frá ári lengi vel og líklegt að svo verði áfram.

Annað það sem landverðirnir hafa áhyggjur af er að aukinn fjöldi gesta á svæðið eru ekki gangandi heldur hjólandi á fjallahjólum en fjallahjólaleiga hefur verið starfrækt í Bakkagerði á Borgarfirði eystra síðustu ár og nýtur vaxandi vinsælda. Benda landverðir á að allar gönguleiðir á svæðinu hafi á sínum tíma verið stikaðar með gangandi fólk í huga en ekki annars konar umferð. Greina þarf í kjölinn sem fyrst hvaða gönguleiðir þola hugsanlega umferð hjólandi fólks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar