Mjög dregur úr álagi og þreytu nemenda í grunnskólum Austurlands

Álag á nemendur í þremur bekkjum grunnskóla á Austurlandi minnkar töluvert á milli ára samkvæmt Íslensku æskulýðsrannsókninni 2024 sem gerð var opinber í vikunni. Þá finna mun færri nemendur fyrir þreytu á skólatíma.

Rannsókn þessari er ætlað að varpa ljósi á líðan barna í grunnskólum landsins og með því fá skýrar vísbendingar hvernig bæta megi þá líðan almennt.

Við kynningu á niðurstöðum þessa árs fannst nokkuð skýr munur á nokkrum lykilþáttum meðal nemendanna frá fyrri könnun 2023. Könnunin er skrifleg meðal allra nemenda í 6., 8. og 10. bekkjum og er ávallt gerð á vorin. Að henni stendur Menntavísindadeild Háskóla Íslands.

Færri þreyttir

Jákvæð þróun er einnig vera raunin varðandi grunnskóla Austurlands og þar sérstaklega í tveimur þáttum. Annars vegar fækkar mikið þeim nemendum sem segjast vera þreytt í skólanum nánast alla daga eða flesta. Skýrt dæmi um það er 10. bekkur en yfir helmingur þeirra, 50,8%, kvartaði yfir mikilli þreytu á skólatíma 2023 en einungis 31,7% kvarta yfir því sama nú. Einnig dregur markvert úr þreytu hjá nemendum í 8. bekk eða úr 49,1% í 39,1%

Færri undir álagi

Þeim fækkar einnig töluvert sem kvarta yfir miklu eða nokkuð miklu álagi í náminu austanlands. 2023 sagðist 31,5% nemenda 6. bekkjar finna fyrir töluverðu álagi en ári síðar er fjöldi þeirra kominn niður í 25,4%. Í 8. bekk sögðust 54,4% þeirra vera undir töluverðu álagi 2023 en fjöldinn í nýju könnuninni er 40,4%. Álagið minnkar einnig meðal elstu nemendanna í 10. bekk. Hvorki fleiri né færri en 71,2% þeirra sögðust undir miklu eða töluverðu námsálagi í fyrra en hlutfallið nú mælist 61,3%. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.