Íbúar hafa áhyggjur af ágangi hreindýra á suðurfjörðum

hreindyr_web.jpg
Ágangur hreindýra á sunnanverðum Austfjörðum hefur aukist nokkuð í vetur. Bændur í Breiðdal hafa kvartað undan áganginum og á Stöðvarfirði óttast menn um skógrækt.

Hrafn Baldursson, íbúi á Stöðvarfirði, viðrar áhyggjur sínar af ágangi hreindýranna í bréfi sem hann sendi bæjarráði Fjarðabyggðar í byrjun mánaðarins. „Þar sem verið er að koma upp lítilsláttar skógrækt á jörðunum innan við þorpið stefnir í tjón á henni takist ekki að stemma stigu við ágangi.

Þar segist hann hafa séð afleiðingar þess að hreindýr gangi laus í skógrækt og spyr eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda. 

„Nú er þar til að taka að í Breiðdal er orðin til þó nokkur hjörð hreindýra og líður nú ekki svo sumar að þau sjáist ekki hér inn á dal. Hvað hreindýrin varðar er heppilegast að skjóta þau sem hingað slæðast áður en þetta verður að hjörð og áður en skaðinn verður.“

Stórar hjarðir héldu til í Breiðdal í vetur og kom það lítið á óvart þegar fyrsta dýr veiðitímabilsins var þar fellt fyrir viku. Bændur í Breiðdal eru ekki alls kostar sáttir við komu dýranna sem skemma tún og girðingar.

„Hreindýrin hafa skemmt fyrir okkur trjágróður, það hef ég orðið var við. Sömuleiðis hafa þau brotið girðingarstaura, slitið niður hlið, slitið vír og rifið af einangrun. Árs og tveggja ára gamlar nýræktir eru bara eins og golfvellir, þær eru nagaðar alveg ofan í rót,“ sagði Arnaldur Sigurðsson, bóndi á Hlíðarenda í Breiðdal í samtali við Bændablaðið í lok maí.

„Það er enginn sem telur sig bera bótaábyrgð vegna þessa. Þessi litli hreindýraarður sem við fáum á að koma í stað beitarinnar en það bætir ekki fyrir tjónið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar