Bátur sökk í höfninni á Stöðvarfirði

Báturinn Drangur ÁR 307 sökk í Stöðvarfjarðarhöfn í morgun. Verið er að reyna að koma upp girðingum í kringum hann til að koma í veg fyrir að mengun berist út frá honum.

Verið var að landa úr öðrum bát í höfninni þegar fólkið sem var við þá iðju tók eftir að Drangur var farinn að hallast ískyggilega mikið. Eftir að afturtog slitnaði fór báturinn hratt niður og er nú kominn niður í botn.

Björgunarsveitir frá Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík auk slökkviliðs og hafnarstarfsmanna eru nú að reyna að setja út mengunarvarnagirðingar til að hindra að mengun berist út frá skipinu. Von er á að varðskipið Þór fari til Stöðvarfjarðar en það er á Fáskrúðsfirði sem stendur.

Engar tilraunir eru byrjaðar til að reyna að ná bátnum upp en dælubúnaður er á staðnum.

Báturinn er gerður út á sæbjúgnaveiðar en skipverjar voru fjarri í helgarfríi. Engin slys urðu því á fólki.

Drangur er togbátur, smíðaður af Herði hf. í Njarðvík árið 1984 en gerður út af Aurora Seafood með heimahöfn á Stokkseyri. Hann er 25,5 langur, 7 metra breiður og 263 brúttótonn. Báturinn hét áður Valbjörn ÍS en var tekinn í gegn fyrr á árinu en Aurora keypti hann seint á síðasta ári.

Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.