Báturinn brann á innan við tíu mínútum

Innan við tíu mínútur liðu frá því að eldur kom upp í ellefu metra plastbáti, sem var á siglingu milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa síðasta sumar, uns báturinn var bruninn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um það þegar Sæborg NS-40 brann og sökk i júlí í fyrra.

Einn var um borð í bátnum og bjargaðist hann um borð í björgunarbát áður en hann var hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt skýrslunni var báturinn á siglingu þegar skipverjinn varð fyrst var við olíueim frá vélarrúminu og svo reyk sem fyllti stýrishúsið. Honum tókst að ræsa slökkvikerfi en ekki að loka fyrir nema aðra af lofttúðum vélarrúmsins. Aftast á bátnum var olíutankur með 900 lítrum af olíu. Talið er að hann hafi fóðrað eldinn.

Skipverjinn hafði samband við Vaktstöð siglinga um klukkan 14:50 og tilkynnti um að báturinn væri alelda. Samkvæmt skýrslunni var honum bjargað um borð í þyrluna rúmum tuttugu mínútum síðar.

Báturinn brann á innan við tíu mínútum og skipverjanum tókst ekki að ná í björgunarbúning sem var geymdur í káetu. Vel gekk hins vegar að sjósetja björgunarbátinn sem var ofan á stýrishúsinu.

Rannsóknarnefndin beinir þeim tilmælum til smábátasjómanna að skoða staðsetningar björgunarbúninga þannig að unnt sé að nálgast þá ef erfitt er að fara í káetu því oft sé naumur tími ef eldur kemur upp í plastbátum.

Sæborgin var 11 metra bátur úr Trefjaplasti, smíðaður á Skagaströnd árið 1988 og gerður út frá Vopnafirði.

Séð yfir Héraðsflóa. Mynd: Jónas Hafþór Jónsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.