Baugur Bjólfs skal klár í október á næsta ári í síðasta lagi
Skrifað hefur verið undir verksamning við MVA um byggingu þess hringlaga útsýnispalls á Bæjarbrún sem hlotið hefur nafnið Baugur Bjólfs. Öllu skal þar lokið í síðasta lagi í október 2025.
Samkvæmt þeim samningi er gert ráð fyrir að MVA ljúki að öllu leyti við steyptan hluta pallsins ásamt handriðum nú strax í sumar þannig að mannvirkið sjálft verður þá risið að mestu. Þá er nokkurt verk eftir enn er varða lokafrágang handriðs og jarðvinnu og frágang vegna Baugsins sjálfs og eins á aðkomusvæðinu. Hugsanlegt er að hægt verði að ljúka verkinu að stærstu leyti á árinu en sökum þess hve Baugurinn stendur hátt og allra veðra þar von mestanpart ársins er gefinn tími til okóber á næsta ári.
Tilboð MVA hljóðar upp á að ljúka verkinu á þeim tíma fyrir tæpar 174 milljónir króna en sveitarfélagið Múlaþing greiðir þó aðeins um sextán milljónir króna þar sem 158 milljóna króna styrkur fékkst til verksins úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Litlum vafa er undirorpið að útsýnispallur sem þessi mun trekkja að ferðamenn í stórum stíl eins og sambærilegir útsýnispallar á ystu nöf fjallstoppa með stórkostlegu útsýni gera afar víða í heiminum nú þegar.
Teikning af Baugi Bjólfs hátt yfir Seyðisfirði. Þess ekki langt að bíða að teikningin verði að raunveruleika.