Beðið eftir frekari gögnum í rannsókninni í Neskaupstað

Lögreglan á Austurlandi heldur áfram að afla gagna varðandi andlát hjóna í heimahúsi í Neskaupstað síðasta fimmtudag. Maður, grunaður um verknaðinn, sætir gæsluvarðhaldi og einangrun fram til föstudags.

Rannsókn málsins hefur haldið áfram yfir helgina og miðar vel, að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns.

„Við erum að hnýta lausa enda en það tekur tíma þótt við reynum að vinna eins hratt og hægt er. Við erum til dæmis að kalla eftir gögnum annars staðar frá, meðal annars fjarskiptagögnum og öðrum rafrænum gögnum. Eins er beðið eftir niðurstöðu krufningar.“

Aðspurður um skýrslutökur af mögulegum vitnum segir hann að búið sé að tala tala við „nokkuð marga aðila“ og því verði haldið áfram. Það sé meðal annars til að teikna upp tímalínu atburðarásarinnar.

Hjón á áttræðisaldri fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað í hádeginu á fimmtudag. Strax kviknaði grunur um að andlát þeirra hefði borið að með saknæmum hætti. Einstaklingur var handtekinn innan við tveimur tímum síðar grunaður um verknaðinn. Hann var á föstudag úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun í viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar