Beðið eftir að Sigmundur Davíð staðfesti kjördæmi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur ekki enn gefið það út með óyggjandi hætti í hvaða kjördæmi hann bjóði sig fram í komandi þingkosningum. Á sama tíma basla fyrrum samherjar hans við að koma saman framboðslista.

Tíu dagar eru liðnir frá því að Sigmundur Davíð kynnti það klukkutíma fyrir auka kjördæmisþing flokksins að hann væri hættur í flokknum.

Þeir fulltrúar á þinginu, sem Austurfrétt hefur rætt við, segja að tíðindin hafi fáum komið á óvart og höfðu þar af leiðandi lítil áhrif á þá ríflega 100 fulltrúa sem það sátu.

Þingið var friðsamt, gekk vel fyrir sig og eina breytingin var að tillaga stjórnar kjördæmissambandsins um tvöfalt kjördæmisþing var felld, í ljósi aðstaðna var talið hagstæðara að skipa uppstillingarnefnd.

Langur aðdragandi

Í huga margra var brotthvarfið aðeins tímaspursmál. Stofnun Framfarafélagsins virtist ekki annað en vísir að klofningi. Tveimur dögum fyrir kjördæmisþingið spurðist út að Björn Ingi Hrafnsson hefði tekið frá lén í nafni Samvinnuflokksins og fljótt eftir tilkynning Sigmundar var send út var fullyrt að hann myndi ganga til liðs við Samvinnuflokkinn.

Á því var einn hængur. Stuðningsmenn Sigmundar Davíðs eru margir ekkert hrifnir af Birni Inga og mun Sigmundur hafa neitað fyrir nokkur tengsl þeirra á milli fyrst þegar eftir því var gengið við hann. Þess vegna varð Sigmundur Davíð að stofna eigin flokk í eigin nafni sem Björn Ingi gekk í en ekki öfugt.

Eins hafði spurst til Sigmundar í einkaheimsóknum til valdra stuðningsmanna í kjördæminu vikuna fyrir. Hann leit hins vegar ekki við á laugardagsfundi félagsins á Egilsstöðum, eins og hefð er fyrir þegar þingmenn eru á ferðinni.

Helstu tilfinningarnar sem þingfulltrúarnir sýndu voru vonbrigði yfir að Sigmundur skyldi ekki mæta á þingið til að kveðja fyrrum samherja í eigin persónu heldur senda frá sér langt bréf og fara svo í sjónvarpsviðtöl frá Akureyri.

Í bréfinu lýsir Sigumundur að hann sé uppgefinn á stöðugum árásum innan úr flokknum. Þar talar hann um hvernig reynt hafi verið að fella hann í kjördæminu strax árið 2013. Viðmælendur Austurfréttar eru hissa á þeim orðum, Sigmundi hafi almennt verið tekið opnum örmum þegar hann flutti sig yfir í kjördæmið en hins vegar þingmanni sem verið hafði þar í sex ár haldið til hliðar.

Birkir Jón Jónsson hafði verið í fyrsta sætinu í kjördæminu en steig til hliðar og studdi Sigmund. Sá stuðningur er ekki lengur til staðar og skrifaði Birkir Jón á Facebook-síðu sína eftir Kastljós viðtal Sigmundar fyrir viku: „Sumir stjórnmálamenn varpa sprengjum í gríð og erg. Afla sér þannig fylgis og hreinlega nærast á slíku ástandi. Sumir stjórnmálamenn reyna meira að segja að endurskrifa söguna.“

Margt breytt á einu ári

Skriður komst á málin þegar hinn þingmaður flokksins í kjördæminu, Þórunn Egilsdóttir frá Vopnafirði, bauð sig fram gegn Sigmundi í fyrsta sæti listans. Í bréfi sínu sagði Sigmundur að hún hefði verið eggjuð til að fara gegn sér um leið og hann rifjaði upp að á kjördæmisþingi fyrir aðeins ári hefði hann fengið 73% en Þórunn 13%.

Fljótt á litið hefði Sigmundur Davíð átt að geta rúllað upp samkeppni við Þórunni aftur. Ýmislegt hefur hins vegar breyst á einu ári.

Þótt fleiri kostir væru í kjöri fyrir ári voru margir fulltrúar þá á að ekki væri hægt annað en að kjósa sitjandi formann flokksins í fyrsta sætið. Margir hinir sömu mættu síðan á landsfund viku seinna og áttu hlut í að fella Sigmund Davíð úr sæti formanns.

Landsfundurinn situr mjög í Sigmundi og stuðningsmönnum hans sem tala um lúalega aðför. Austurfrétt hefur rætt við fyrrum fylgjendur Sigmundar sem segja hann og hans fólk hafa séð um að losa sig við atkvæðin með kalla svívirðingar að Eygló Harðardóttir, þáverandi ráðherra, þegar hún ávarpaði þingið og fyrir að slökkva á beinni útsendingu á þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þá forsætisráðherra, kom í pontu. Þessir fulltrúar snérust á sveif með Sigurði Inga á fundinum.

Sigmundur mætir ekki

Annað sem breytir stöðunni er að Þórunn hefur verið formaður þingflokks frá 2015 sem er eitt stærsta embættið í stjórnarandstöðuflokki. Þingflokksformaðurinn bauð sig sem sagt fram í fyrsta sætið gegn óbreyttum þingmanni.

Sigmundur Davíð hefur einnig grafið undan sér sjálfur með að mæta illa í vinnuna á Alþingi. Hann hefur sjálfur mótmælt þeim ásökunum en tölurnar tala sínu máli, til dæmis hefur hann aðeins mætt á þriðjung funda utanríkismálanefndar þingsins, en auk hennar situr hann í Þingvallanefnd. Þá hefur hann heldur ekki sést á þingflokksfundum.

Þegar liðið er einum færri þurfa hinir leikmennirnir að hlaupa meira. Þess vegna hafa aðrir þingmenn þurft að leggja á sig aukna vinnu í fjarveru Sigmundar. Sérstaklega mun hafa reynt á Þórunni enda orðin ein með kjördæmið. Hún hafði því nóg að gera þegar fjárlagafrumvarpið fór í gegnum þingið síðasta haust á sama tíma og Sigmundur sást ekki.

Þingmenn hafa alltaf þann kostinn að geta kallað inn varamann og þar hefur Framsókn Líneik Önnu Sævarsdóttur frá Fáskrúðsfirði sem var á þingi á síðasta kjörtímabili. Hún hefur hins vegar sjaldan tekið sæti því Sigmundur hefur sjaldnast látið einn né neinn vita um fjarvistir sínar úr þinginu né gert grein fyrir þeim.

Í Morgunblaðinu í síðustu viku var rætt við þrjá núverandi og fyrrverandi þingmenn flokksins sem virtust anda léttar yfir að Sigmundur Davíð væri farinn. Heimildir Austurfréttar segja það sama.

Á Bessastaði án vitundar þingflokks

Vendipunkturinn í samstarfi Sigmundar Davíðs við þingflokkinn var þegar hann fór vorið 2016 á fund forseta Íslands með beiðni um að rjúfa þing en var sendur til baka. Þingflokkurinn vissi ekkert af þeirri för áður en lagt var af stað í hana og fylgdist með í gegnum fjölmiðla. Ekki var nýtt að Sigmundur spilaði sóló en þarna var mælirinn fullur.

Í yfirlýsingunni frá á sunnudaginn segist Sigmundur hafa beðið Sigurð Inga um að taka við forsætisráðuneytinu á meðan öldurnar lægði. Heimildir Austurfréttar herma hins vegar að þingflokkurinn hafi stillt Sigmundi Davíð upp við vegg eftir Bessastaðaförina og krafist að hann stigi til hliðar. Það yrði gert þannig að hann gæti gengið frá eins hnarreistur og hugsast gæti en kæmi ekki í bakið á þingflokknum.

Skilningur Sigmundar á stöðunni var hins vegar greinilega allt annar og ekki sat hann á þeim friðarstóli sem vonast hafði verið eftir. Því fór Sigurður Ingi gegn honum sem formaður og vann. Sigmundur og hans stuðningsmenn hafa síðar gagnrýnt flokksforustuna fyrir að leita ekki sátta en sættirnar virðast flestar felast í að Sigmundur verði aftur númer eitt, í mesta lagi með Lilju Alfreðsdóttur sem millileik.

Annað hvort elskaður eða hataður

Fáir íslenskir stjórnmálamenn hafa svo áratugum skiptir vakið jafn heitar tilfinningar og Sigmundur Davíð. Að vissu leyti þarf það ekki að furða, Sigmundur var sigurvegarinn í Icesave málinu og hefur sett fram ákveðnari sýn en keppinautar hans.

Þeir sem styðja hann elska hann skilyrðislaust og fylgja honum hvert sem er. Á móti kemur að þeir sem eru á móti honum fyrirlíta hann. Í sumum tilfellum hafa áratugalöng vinabönd trosnað út af ágreiningi um manninn.

Sigmundur hefur hæfileikann til að láta umræðuna snúast um sig. Þess vikuna hefur meira verið rætt um merki Miðflokks hans heldur en flest annað í íslenskum stjórnmálum þegar aðeins eru þrjár vikur til kosninga.

Stuðningsmennirnir lýsa ánægju sinni með persónuleg kynni af Sigmundi og hafna öllum ásökunum á hann sem tilbúningi fjölmiðla. Á undanförnum mánuðum hefur hins vegar kvarnast úr vinahópi forsætisráðherrans fyrrverandi. Margir fyrrverandi stuðningsmenn, sem fórnað hafa orðspori sínu fyrir að verja hann og stutt hann dyggilega, sitja sárir eftir og segjast sakna mannsins sem þeir kynntust árið 2009.

Fátt óvænt í hópi þeirra sem fóru

Í gegnum síðustu viku bárust nær daglegar fréttir af úrsögnum úr Framsóknarflokknum. Það vakti furðu sumra en eins og bent var í Kjarnanum voru sendar út fréttatilkynningar um nánast hverja úrsögn. Ekki er ljóst hve margir hafa fylgt Sigmundi en stefnan virðist að gera sem mest úr hverjum og einum og láta áhrifin endast sem lengst.

Í þessum hópi má þó finna marga einstaklinga sem unnið hafa ötullega fyrir flokkinn áratugum saman. Af Austfjörðum má nefna Sigurð Hólm Freysson frá Eskifirði, sem verið hefur formaður Framsóknarfélagsins í Fjarðabyggð, Einar Birgi Kristjánsson einnig frá Eskifirði, sem sæti átti í kjördæmisráðinu og Egilsstaðabúann Gunnar Sigbjörnsson sem var áður formaður kjördæmissambandsins. Nöfnin sem fylgt hafa Sigmundi koma almennt ekki á óvart.

Klofningur út af Sigmundi Davíð er ekki nýr í Framsóknarflokknum, hann hefur staðið yfir nánast samfellt síðan hann var kjörinn formaður árið 2009. Hann hefur hins vegar yfirleitt verið í hina áttina, menn hafa yfirgefið flokkinn út af Sigmundi. Hann var nefnilega frá fyrsta degi duglegur við að skipa þeim sem ekki voru að hans skapi út í horn, sama hversu hollir þeir höfðu verið flokknum, en koma áfram þeim sem voru í hans liði, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei komið nálægt hreyfingunni.

Óánægðir Framsóknarmenn voru meðal þeirra sem stofnuðu Bjartra framtíð. Fleiri fóru úr flokknum út af Panama-skjölunum í fyrra. Einhverjir þeirra snéru strax aftur um leið og Sigurður Ingi var kjörinn formaður, aðrir hafa undanfarna daga lýst yfir áhuga sínum til að skoða flokkinn aftur sem kost. Þótt einhverjir hafi skráð sig aftur í flokkinn eftir brotthvarf Sigmundar er óvíst hve margir skila sér til baka.

Verður Sigmundur áfram í Norðausturkjördæmi?

Sigmundur Davíð hefur ekki enn staðfest í hvaða kjördæmi hann bjóði sig fram fyrir Miðflokkinn en hann lýsti því yfir þegar boðað var til kosninga að hann stefndi á Norðausturkjördæmi. Í viðtali við Fréttablaðið fyrir viku segist hann enn hafa hug á kjördæminu þar sem hann eigi marga dygga stuðningsmenn en lokar ekki á neina möguleika.

Þeir sem þekkja til kosningakerfisins benda á að Sigmundi gæti þótt heillandi að færa sig í suðvesturkjördæmi, enda heldur hann til í Garðabæ þótt lögheimili hans sé í Jökulsárhlíð. Í því kjördæmi er lægsti þröskuldurinn að kjördæmakjörnum þingmanni, sem getur verið dýrmætur eigi flokkurinn í vandræðum með 5% lágmarkið á landvísu.

Fyrstu kannanir benda til þess að Sigmundur þurfi ekki að hafa áhyggjur miðað við að flokkur hans mælist stærri en Framsóknarflokkurinn. Í hópi hans er harðsnúið og harðduglegt lið, vel sjóað í kosningabaráttu sem mun keyra öfluga baráttu.

Þá mánuði sem reynt var að mynda ríkisstjórn síðasta haust komu Framsóknarmenn alls staðar að lokuðum dyrum. Ástæðan var að Sigmundur Davíð var með í för. Að hann sé farinn annað opnar flokknum aftur tækifæri til stjórnarmyndana en fyrst þarf flokkurinn að koma að þingmönnum. Þar stendur tæpast vonarstjarnan Lilja Alfreðsdóttir í Reykjavík.

Hver er staðan í kjördæminu?

Enn er óljóst hvernig Framsóknarflokkurinn raðar á sinn framboðslista en fylla þarf nokkur skörð. Auk Þórunnar lýsti Líneik Anna því strax yfir á kjördæmisþinginu að hún gæfi kost á sér.

Norðfirðingurinn Jón Björn Hákonarson, sem kjörinn var ritari flokksins fyrir ári, hefur sýnt áhuga á sæti á listanum. Flokkurinn hefur í undanförnum kosningum sveiflast frá því að eiga 2-4 þingmenn í kjördæminu en engum norðan Múlasýslna dettur í hug að Austfirðingar fái þrjú efstu sætin á listanum.

Eftir brottfall Höskuldar Þórhallssonar í fyrra vilja Akureyringar gjarnan fá sinn fulltrúa ofarlega. Uppstillinganefndin á því úr vöndu að ráða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.