Beitir NK fékk akkeri frá skútuöld í vörpuna

Beitir NK fékk forláta akkeri í vörpuna í lok síðasta mánaðar. Beitir var á síldveiðum í sunnanverðu Seyðisfjarðardýpi og fékk þá ankeri í vörpuna. Síldin er veidd með flotvörpu en á daginn heldur hún sig niður við botn og þá er varpan dregin eftir botninum við veiðarnar.

Í frétt um málið á vefsíðu Síldarvinnslunnar segir að við lauslega athugun gæti ankerið verið frá tímabilinu frá miðri 19. öld til byrjunar 20. aldar þannig að ekki er ósennilegt að hér sé um ankeri frá skútuöld að ræða.

„Hér á landi voru ankeri eins og þetta gjarnan nefnd bátsankeri eða stokkankeri, þó stokkankeri hafi hugsanlega frekar verið notað um ankeri  þar sem stokkurinn var úr tré,“ segir á vefsíðunni.

„Ankeri af þessari gerð hafa verið til mjög lengi en það er ekki fyrr en á 19. öld sem farið er að steypa þau í heilu lagi og um leið verður þá hnakkinn bogadregnari. Einnig er hægt að benda á að lykkja er fest í efra auga ankersins en á eldri gerðum var venjulega járnhringur þar í gegn.“

Ennfremur segir að fróðir menn hafa verið spurðir um hugsanlegan aldur ankersins og hafa þeir hallast að því að það sé frá seinni hluta 19. aldar.

Mynd: Tómas Kárason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.