Benedikt ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá Niceair

Benedikt Ólason, flugstjóri á Egilsstöðum, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá norðlenska flugfélaginu Niceair.

„Ég hlakka mikið til að taka þátt í uppbyggingu og eflingu starfsemi Niceair á starfsvæði þess á Norður- og Austurlandi. Fyrirtækið er ungt og mikil áskorun að taka þátt í mótun þess á fyrstu stigum,“ er haft eftir Benedikt í tilkynningu.

Hann hefur yfir 20 ára reynslu í flugi, lengst af sem flugstjóri, þjálfunarflugstjóri og Airbus-flotastjóri hjá Air Atlanta.

„Við erum glöð með að fá Benedikt til liðs við hópinn. Bakgrunnur hans og fjölbreytt reynsla er mjög góð viðbót við sterkan hóp. Það er mjög mikilvægt fyrir ungt fyrirtæki að fá til sín svo mikla og farsæla reynslu úr alþjóðlegu starfsumhverfi,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair.

Niceair tók til starfa í júní og flaug í sumar til Kaupmannahafar og Spánar frá Akureyri. Fleiri áfangastaðir eru í bígerð fyrir næsta sumar.

Megintilgangur félagsins er að auka aðgengi erlends ferðafólks að Norður- og Austurlandi og þjónusta um leið íbúa þessa svæðis. Samkvæmt tölum frá fyrirtækinu hefur starfsemin verið í takti við væntingar, sætanýting frá upphafi 68% en félagið hefur flutt um 25 þúsund farþegar. Hlutfall erlendra farþega í október var 22% og hefur farið vaxandi frá fyrstu ferð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar