Berglind, Berglind og Valgerður sækjast eftir öðru sætinu á lista Sjálfstæðisflokksins

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og varaþingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður og Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, hafa allar lýst yfir áhuga á að taka annað sætið á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi kosningar.

Berglind Harpa birti yfirlýsingu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún sagðist sækjast eftir öðru sætinu. Þar segir hún það lýsa krafti og áhuga hve margir sækist eftir sætum á listaum.

Berglind Harpa, sem er formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, vísar þar meðal annars í efnahagsgreiningu Austurlands sem unnin var fyrir SSA í fyrra. Sú greining sýndi að landshlutinn leggur til fjórðung vöruútflutnings landsins. Berglind kveðst vilja nýta þá aðferðafræði fyrir allt kjördæmið til að leggja áherslu á öflugri innviðauppbygginu. Hún segir einnig að samgöngur hafi setið á hakanum og úr því verði að bæta. Berglind Harpa hefur á kjörtímabilinu sex sinnum tekið sæti á Alþingi.

Berglind Ósk birti einnig yfirlýsingu á Facebook í gær þar sem hún segist bjóða fram krafta sína til áframhaldandi setu í öðru sæti listans. Hún nefnir þar sérstaklega jöfn tækifæri í menntakerfi og eflingu heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins auk verðmætasköpunar. Hún segir þann árangur ekki nást nema með að einfalda regluverk, draga úr óþarfa ríkisafskiptum og styðja við einstaklingsframtakið. Berglind Ósk var fyrst kjörin á þing í síðustu kosningum.

Valgerður, sem sat á Alþingi fyrir flokkinn árin 2013-2017, nefnir menntamálin einnig í sinni tilkynningu en hún er skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík og var áður skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Hún kemur sérstaklega inn á eflingu iðn- og verknáms sem skapað geti fleiri tækifæri fyrir ungt fólk í heimabyggð. Hún talar einnig um samgöngu- og orkumál, lífsgæði eldra fólks og verðbólgu.

Jens Garðar Helgason og Njáll Trausti Friðbertsson hafa báðir gefið kost á sér í fyrsta sætið. Njáll Trausti lét hafa eftir sér í samtali við Vísi að líklega tæki hann annað sætið ef hann tapaði því fyrsta.

Tillaga liggur fyrir að kjósa um fimm efstu sætin á framboðslistanum á tvöföldu kjördæmisþingi fokksins í Mývatnssveit á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.