Berglind Ósk: Eina rétta niðurstaðan að slíta ríkisstjórninni

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, segir að ríkisstjórnarslit og kosningar hafi verið eina rétta leiðin í þeirri stöðu sem komin var upp í íslenskum stjórnmálum. Hún segir heilbrigt að fólk keppist um sæti á framboðslistum en hún er ein af fimm einstaklingum sem gefið hafa kost á sér í tvö efstu sætin hjá flokknum í kjördæminu.

„Mér finnst frábært að fólk gefi kost á sér. Ég tel það heilbrigðismerki fyrir flokkinn,“ svarar Berglind aðspurð um framboðin í efstu sætin á lista flokksins. Berglind Ósk skipaði annað sætið í síðustu kosningum og fór þá ný inn á þing.

Hún, Berglind Harpa Svavarsdóttir, varaþingmaður úr Múlaþingi og Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrum varaþingmaður frá Húsavík, hafa allar gefið kost á sér í annað sætið. Jens Garðar Helgason, fyrrum bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður frá Akureyri keppa um oddvitasætið. Valið verður á kjördæmisþingi á sunnudag.

Sjálfhætt þegar ekki er lengra komist með málefnin


Kosið verður þann 30. nóvember í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. „Mér fannst þetta eina rétta niðurstaðan. Ég tel Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, hafa staðið vel að henni og svarað vel fyrir hana.

Mér finnst hann hafa gert rétt gagnvart samstarfsflokkunum þótt þeir hafi brugðist við eins og þeir gerðu. Ef þú nærð ekki árangri fyrir landsmenn í þeim málefnum sem þú hefur lagt á borðið þá er slíku samstarfi sjálfhætt.

Mér finnst líka réttast að fólkið í landinu fái að ganga að kjörborðinu. Annað millibilsástand hefði verið vont. Þess vegna studdi ég þessa ákvörðun alla leið.“

Snörp, hörð og skemmtileg kosningabarátta


Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur mælst í sögulegu lágmarki á landsvísu og það sama gegnir um Norðausturkjördæmi. Berglind Ósk kveðst bjartsýn fyrir kosningabaráttu.

„Þetta er rétt með kannanirnar og við höfum augljóst verk að vinna. Við förum saman út í kosningabaráttuna þegar við höfum stillt saman strengi okkar eftir sunnudaginn. Hún verður snörp og hörð en við ætlum að gera hana skemmtilega.

Ég veit að við eigum mikið inni. Ég finn það á samtölum, ekki bara við flokksmenn heldur líka almenna kjósendur. Það er meðbyr með ákvörðun okkar um að slíta stjórnarsamstarfinu og taka ábyrgð á stöðunni í íslenskum stjórnmálum.“

Aðspurð kveðst hún ekki útiloka neitt stjórnarsamstarf þótt hún vonist til þess að hin borgaralegu öfl nái saman. „Ég á enga óska ríkisstjórn þótt von mín sé að hin borgaralegu öfl geti sameinað sína sýn á framtíð Íslands. Við þurfum fólk sem er tilbúið að virkja kraft einstaklingsins og tala fyrir þeim mörgu tækifærum sem hér eru. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei útilokað neitt stjórnarsamstarf – eins og sjá má á síðustu sjö árum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar