Betra Sigtún leitar að frambjóðendum

Stefán Grímur Rafnsson, oddviti sveitarstjórnar á Vopnafirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram til setu í sveitarstjórn undir merkjum Betra Sigtúns. Miklar breytingar hafa orðið á framboðinu á kjörtímabilinu.

„Já, í grófum dráttum þýðir þetta að ég held áfram ef ég fæ fólk með mér,“ segir Stefán Grímur um yfirlýsingu frá framboðinu sem lesin var upp í Ollasjoppu klukkan ellefu á föstudagsmorgun.

Í yfirlýsingunni er farið yfir nokkur atriði frá kjörtímabilinu sem er að líða. Það kom nýtt árið 2014, skipað ungu fólki úr hreppnum. Nafnið er kennt við götuna Sigtún en yfirlýstur tilgangur framboðsins var að tryggja að hún yrði malbikuð. Það atriði var hins vegar ekki að finna í formlegri upptalningu stefnumála og mun kjörtímabilið líða án þess að hún verði malbikuð.

Efst stefnumálanna var að auglýsa eftir sveitarstjóra og ráða með óháðri ráðningarstofu. Það var gert eftir að Betra Sigtún myndaði meirihluta með K-lista félagshyggju eftir kosningar.

Meirihlutinn sprakk í byrjun desember út af deilum um sveitarstjórann og myndaði Betra Sigtún nýjan meirihluta með Framsóknarflokki og óháðum. Í yfirlýsingunni segir að Betra Sigtún hafi upphaflega reynt að búa til samstarf framboðanna þriggja en það ekki gengið. Samstarfið hafi hins vegar gengið vel á tímabilinu.

Talsvert brottfall hefur verið úr sveitarstjórninni, mest af lista Betra Sigtúns en auk Stefáns Rafns lýkur Unnur Ósk Unnsteinsdóttir tímabilinu sem fulltrúi í sveitarstjórn en hún var upphaflega í fimmta sæti. Ýmsar ástæður eru fyrir mannabreytingunum.

Í samtali við Austurfrétt segir Stefán Grímur að minnst tveir aðilar af gamla framboðinu hafi staðfest að þeir vilji halda áfram. Mögulega séu fleiri en leitað sé að fólki til að fylla upp í listann. 10-12 manns þurfi til þess. Hluti þeirra sem horfið hafa á brott taka þátt í vinnu með listanum.

Frestur til að skila inn framboðslista er til 5. maí. Komi engin listi fram verður óhlutbundin kosningu og eru þá allir íbúar í kjöri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.