Betri svefn til Bandaríkjanna

Norðfirðingurinn Erla Björnsdóttir stofnaði fyrirtækið Betri svefn árið 2013, eftir að hafa tekið þátt í Gullegginu, árlegri frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Núna, sex árum síðar, er fyrirtækið komið í samstarf við bandaríska fyrirtækið Fusion Health, sem sérhæfir sig í svefnvandamálum þar í landi.



Meginmarkmið Gulleggsins er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Erla, sem er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum, sendi inn hugmyndina um Betri svefn á sínum tíma, ásamt þeim Gunnari Jóhannssyni, Steindóri Oddi Erlingssyni og Hálfdani Steinþórssyni.

„Við höfðum áttað okkur á því að lítið væri unnið eftir klínískum leiðbeiningum um meðhöndlun svefnleysis hérlendis og vildum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að breyta því. Samkvæmt þeim á hugræn atferlismeðferð (HAM) að vera fyrsta meðferð við langvarandi svefnleysi, og einungis að nota lyf ef sú meðferð dugar ekki ein og sér . Hérlendis var sú meðferð óaðgengileg, bæði var hún kostnaðarsöm og biðlistarnir langir og þar af leiðandi vandinn að mestu meðhöndlaður með lyfjum, sem er stórt vandamál. Við útbjuggum því þessa lausn, hugræna atferlismeðferð við svefnleysi, aðgengilega á vef. Við vorum frumkvöðlar í slíkri meðferð en síðan þá hafa aðrir boðið upp á svipaðar lausnir annars staðar í heiminum,“ segir Erla.


Endurbætt meðferð fyrir Bandaríkjamarkað
Erla segir að reksturinn hafi gengið upp og niður eins og eðlilegt er með sprotafyrirtæki þar sem meira og minna er unnið í sjálfboðastarfi. „Við vorum með starfsemi í Noregi í eitt ár en það gekk ekki upp og í dag er starfsemi okkar þar fyrst og fremst í vísindarannsóknum. Fyrir rúmlega ári síðan fórum við svo að vinna með bandaríska fyrirtækinu Fusion Health, en það er í samstarfi við mörg stór fyrirtæki við að skima, greina og meðhöldla svefnvanda starfsfólks. Þeir voru að leita eftir hentugri meðferð við svefnleysi fyrir starfsfólk fyrirtækja og leituðu því til okkar. Við höfum nú í samstarfi við Fusion Health endurbætt okkar meðferð og lagað hana að Bandaríkjamarkaði og teljum að um einstaka lausn sé að ræða,“ segir Erla, en þau hafa þróað hugræna atferlismeðferð sem byggir á gerfigreind, auk þess að vera studd af svefnsérfræðingum (sleep coach) sem skjólstæðinar geta leitað til meðan á meðferðinni stendur.


Svefninn er grunnur að öllu saman
Erla segir svefnvanda gífurlega útbreitt vandamál. „Svefnvandi er eitt algengasta og dýrasta vandamál sem vinnuveitendur standa frammi fyrir. Skortur á svefni hefur mikil áhrif á andlega líðan og framleiðni starfsfólks, fjarvistir aukast sem og slysahætta í vinnu. Svefnvandi er oft mjög vangreindur og því of seint gripið inn í málin. Svefninn hefur svo mikil áhrif á alla aðra þætti lífsins, þar sem hann er einn af þremur grunnstoðum heilsu, ásamt næringu og hreyfingu. Fólki hættir til þess að huga mun betur að hinum tveimur, en ef svefninn er ekki í lagi verður lítill ágóði af þeim. Svefninn er alger grunnur að öllu saman, hann hefur áhrif á hormónaframleiðslu, hvernig við vinnum úr fæðunni, hvernig brennslan okkar er sem og hvernig við upplifum verki og kvíða.

Erla segir svefnvanda hafa aukist verulega meðal yngra fólks, en áður fyrr var vandinn fyrst og fremst til staðar meðal eldra fólks. „Svefnlyfjanotkun hérlendis hefur aukist gríðarlega hjá ungu fólki síðastliðin ár. Við lifum í samfélagi sem er stútfullt af áreitum og hraðinn er mikill og margir upplifa streitu sem er stór áhættuþáttur svefnleysis. Í flestum tilfellum er hægt að meðhöndla svefnvanda án lyfja. Hér á landi er fólk oft komið í algeran vítahring vegna margra ára neyslu svefnlyfja þegar það leitar til okkar. Þessu viljum við snúa við og höfum verið að vinna að því að koma okkar meðferð inn á heilsugæslustöðvarnar svo hægt sé að fylgja klínískum leiðbeiningum og veita HAM meðferð sem fyrstu meðferð svefnleysis.“


Mikilvægast að forgangsraða svefninum
Erla segir að það séu hins vegar engar töfra- eða skyndilausnir til við svefnvanda. „Svefnvandi er flókið mál og við meðhöndlun hans þarf að taka tillit til margra ólíkra þátta í daglegu lífi. Við byrjum yfirleitt á því að skoða reglu og rútínu í tengslum við svefn. Það skiptir miklu máli að sofna og vakna á sama tíma alla daga vikunnar. Við þurfum að stunda reglubundna hreyfingu, passa upp á góða næringu og forðast áfengi og tóbak. Svo er það auðvitað streitan sem er mjög lúmsk og beintengd svefnleysi. Við þurfum að finna leiðir til þess að draga úr streitu, sérstaklega á kvöldin. Það er sá tími sem ákveðin svæði í heilanum á okkur sem tengjast skynsemi og rökhugsun fara í dvala og allar áhyggjur ýkjast. Við ættlum því alls ekki að skoða ógreidda reikninga á kvöldin eða reyna að leysa deilumál við maka. Við ættlum hins vegar að skapa okkur rólega kvöldrútínu, með því að leggja frá okkur snjalltækin, minnka ljósmagn, fara í heitt bað og lesa góða bók. Þá er mikilvægt að huga að svefnumhverfinu okkar, að í herberginu sé myrkur, gott rúm og engin raftæki. Með því sköpum við gott umhverfi sem kemur ró á líkama og sál. Allra mikilvægast er þó að forgangsraða svefninum, en við höfum öll 24 tíma í sólarhringnum og þurfum að sofa í 7-9 tíma til að vera við góða heilsu, því annars borgum við skattinn einhversstaðar.“


Vill vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum
Erla segir það ómetanlegt að sjá litla hugarfóstrið sitt vaxa svo vel og dafna. „Við erum mjög spennt en höfum ekki hugmynd um hvað bíður okkar, en ég er vongóð og spennt fyrir framhaldinu. Svo eru einnig fleiri spennandi tækifæri til þróunarvinnu hérlendis, sérstaklega þau sem snúa að yngra fólki. Ég vil til dæmis sjá umfjöllun um svefn inn í menntakerfinu, um fyrirbyggjandi aðgerðir. Við erum alltaf að vinna fyrir neðan fossinn og það er mjög mikilvægt að snúa þeirri þróun við.”

Ljósmynd: Erla ásamt Dr. Jeffery Durmer, einum af stofnendum Fusion Health. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.