Betrumbæta verklag vegna heimilisofbeldismála á Austurlandi
Nálega hundrað manns tóku þátt í samráðsfundi vegna verkefnisins Öruggara Austurland fyrr í vikunni sem haldinn var á Reyðarfirði.
Verkefnið Öruggara Austurland var sett á stofn fyrir rúmu ári síðan en þar skuldbatt fjöldi mismunandi aðila sig til að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum í fjórðungnum og þannig auka velsæld íbúa. Þar á meðal öll sveitarfélögin, framhaldsskólarnir, Austurlandsprófastsdæmi, lögregla og sýslumaður auk Heilbrigðisstofnunar Austurlands og UÍA.
Að sögn Margrétar Maríu Sigurðardóttir, lögreglustjóra á Austurlandi, gekk fundurinn vel og var ákaflega vel sóttur enda komu gestir langt að og þar með talinn sjálfur Ríkislögreglustjóri Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
„Dagskráin var tvískipt. Fyrri hlutinn snérist um farsældina, eflingu og innleiðingu hennar á Austurlandi en þar voru haldin erindi bæði frá Múlaþingi og Fjarðabyggð sem þjónusta stóran hluta umdæmisins. Mjög skemmtilegt að þar kom fram að Austurland er komið mjög vel á veg miðað við landið í heild við innleiðinguna. Í síðari hlutanum var sérstaklega farið í innleiðingu á verklagi vegna heimilisofbeldis sem verið er að samhæfa og samþætta.“
Alltaf nokkur tilvik heimilisofbeldis
Heimilisofbeldi er vandamál austanlands sem víðar og hingað til á árinu eru 17 slík mál skráð í bókum lögreglu. Flest hafa þau verið 22 talsins árið 2020 sem var mikið stökk frá árunum áður en það skýrist af breyttum verklagsreglum lögreglu við skráningar slíkra mála.
Næsta þrep fyrir neðan heimilisofbeldi er það sem kallaður er ágreiningur milli skyldra eða tengdra aðila en þar kemur lögregla að málum þó ekki hafi beint komið til ofbeldis. Ein 37 slík mál eru skráð á árinu en voru flest 2020 eða 43 talsins.
Fram kom á fundinum að allnokkrir mismunandi þættir á Austurlandi hafa áhrif á hversu fljótt hægt er að koma fórnarlömbum heimilisofbeldis til hjálpar. Víðfeðmt svæðið þýðir oft að langt er í hjálp hvort sem er frá lögreglu eða sjúkraliði. Að sama skapi getur tekið langan tíma að koma fólki á sjúkrahús í tilfellum. Þá er mikil nálægð og kunnugleiki sígilt vandamál því það dregur úr vilja margra að leita sér aðstoðar eða tilkynna brot.
Öryggi er lykilbreyta í góðu samfélagi og fjölmargir aðilar vinna saman að því að auka það öryggi eftir megni. Mynd Austurbrú