Biðja fólk um að vera heima meðan veðrið gengur yfir
Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Austurland hvetur íbúa til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu ef óveðursspár fyrir morgun, miðvikudag, ganga eftir.„Aðilar eru í viðbragðsstöðu og við höfum deilt á milli okkar upplýsingum. Ef veðrið versnar verður aðgerðastjórn virkjuð ef ástæða þykir til,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Samkvæmt veðurspám má búast við norðan stormi eða roki, 20-28 m/s á Austurlandi frá því í nótt og framundir miðnætti annað kvöld.
Gangi spáin eftir verður ekkert ferðaveður í fjórðungnum. „Við viljum biðja fólk um að fara með gát og helst vera heima meðan þetta gengur yfir. Við viljum líka biðja fólk um að fylgjast vel með fréttum og fyrirmælum.“
Í viðvörunum hefur meðal annars komið fram að sjávarstaða kunni að hækka. Því þurfi að huga vel að smábátum þannig þeir hvorki laskist né losni frá bryggju í veðurofsanum. Íbúum hefur einnig verið ráðlagt að tryggja lausa muni.