Birgir Jónsson nýr forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar
Birgir Jónsson, sem fyrir sveitarstjórnarkosningarnar síðasta vor skipaði þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins, hefur verið kjörinn nýr forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Nýr bæjarstjóri tekur þar við 1. apríl.Frá þessu var gengið á fundi bæjarstjórnar síðasta fimmtudag. Ráðningarsamningur við Jónu Árnýju Þórðardóttur sem bæjarstjóra var þar lagður fram og samþykktur með atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Hann gildir út kjörtímabilið eða til ársins 2026.
Mánuður er í dag liðinn síðan Jón Björn Hákonarson tilkynnti að hann hygðist hætta sem bæjarstjóri eins fljótt og nýr gæti tekið við. Hann hefur áfram sinnt daglegum störfum og sat fundinn í síðustu viku sem bæjarstjóri, samkvæmt fundargerð.
Jón Björn var einnig oddviti Framsóknarflokks en hefur óskað eftir sex mánaða leyfi frá störfum í bæjarstjórn frá 1. apríl. Samhliða bæjarstjóraskiptunum verður því frekari uppstokkun á verkaskiptingu innan flokksins og eins í meirihlutasamstarfi hans við Fjarðalistann.
Þannig var Birgir kjörinn forseti bæjarstjórnar á fundinum í stað Hjördísar Helgu Seljan Þóroddsdóttur frá Fjarðalistanum. Hann tók strax við embættinu. Hún verður í staðinn fyrsti varaforseti bæjarstjórnar. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er áfram annar varaforseti. Þá færist Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, sem skipaði fjórða sætið hjá Framsóknarflokki, upp í bæjarstjórnina við brotthvarf Jóns Björns.