Biskup Íslands með opna skrifstofu á Austurlandi
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, verður með skrifstofu sína á Austurlandi næstu daga og býður upp á viðtalstíma á morgun.Í tilkynningu Biskupsstofu segir að skrifstofa biskups verði nokkra daga á ári í hverjum landshluta. Það sé liður í að efla tengsl innan kirkjunnar og stytta boðleiðir milli kirkjufólks um landið og biskups.
Austurland er fyrsti landshlutinn sem Guðrún heimsækir. Með henni í för verða Eva Björk Valdimarsdóttir, biskupsritari og Heimir Hannesson, samskiptastjóri.
Viðtalstímar eru í boði frá klukkan 10-15 á morgun og hægt að bóka þá á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Í samtali við Austurfrétt segir Heimir að þó nokkrir viðtalstímar séu þegar bókaðir og ljóst að áhuginn sé töluverður.
Þríeykið mun ferðast víðar um fjórðunginn næstu tvo daga enda tilgangur komunnar að hitta kirkjufólk um allt Austurland. „Undirbúningurinn hefur gengið vel og það er stíf dagskrá framundan. Við hlökkum til að hitta allt fólkið,“ segir Heimir.
Skrifstofan verður í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju og þar verður einnig á laugardag súpufundur milli klukkan 12 og 14.
Mynd: Þjóðkirkjan