Biskup: Kirkjan hefur alla tíð borið hag fólksins fyrir brjósti
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. sep 2012 00:09 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Biskup Íslands, sr. Agnes Sigurðardóttir, segir kirkjuna alltaf hafa haft hag fólksins að leiðarljósi. Boðskapur Jesú er að hógværð skipti meira máli en sjálfsánægjan og að menn séu sannir.
„Kirkjan hefur alla tíð borið hag fólksins fyrri brjósti þótt saga kenni að mannlegir brestu þrífist líka innan hennar,“ sagði Agnes í predikun sinni á Skriðuklausturhátíð fyrir skemmstu. Messað var í rústum klausturins í tilefni 500 ára vígsluafmælis klausturkirkjunnar.
Þar lagði Agnes út frá sögunni um faríseiann og tollheimtumanninn. Faríseinn barði sér á brjóst og fór í einu og öllu eftir boðskap bókarinnar meðan tolheimtumaðurinn bað um fyrirgefningu guðs. Litið var niður á tollheimtumenn á þessum tíma en Jesú sýndi þeim virðingu og mataðist gjarnan með þeim.
Agnes benti á að hógværð væri verðugri dyggð en sjálfsánægja þótt mönnum væri nauðsynlegt að hafa sjálfstraust. Aðaláherslan væri á að vera sannur, að koma til dyranna eins og menn væru klæddir.
Hún sagði á að fyrir hrun hefðu þeir sem hefðu lýst skoðunum sínum sem byggðu á „gömlu gildunum“ gjarnarn verið skotnir í kaf. Í umræðunni í dag væri oft aukaatriðum og aðalatriðum ruglað saman og vísaði í spakmæli: „Það er ekki erfitt að greina þau í sundur ef menn vita hvort er hvað.“
David Tencer, munkur á Kollaleiru, og sr. Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur á Valþjófsstað, þjónuðu fyrir altari með Agnesi.







