Bjarkey hættir á Alþingi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi matvælaráðherra, hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér í komandi þingkosningum.

Hún tilkynnti þetta í færslu á Facebook í dag. Austurfrétt hefur ítrekað reynt að ná í hana síðustu daga til að ræða framtíð hennar í stjórnmálum og stöðuna í landsmálunum líkt og aðra þingmenn kjördæmisins, en án árangurs.

Bjarkey kom fyrst inn sem varaþingmaður árið 2004 en síðan sem þingmaður eftir kosningarnar 2013. Hún tók við matvælaráðuneytinu í vor en lét af því starfi í kjölfar stjórnarslita í vikunni.

Í tilkynningunni segir hún tímann á Alþingi hafa verið skemmtilegan og hún hafi notið þess að hitta fjölda fólks. Hún hafi einnig notið þess að hitta bæði bændur og smábátasjómenn í sumar og kemur inn á erfiðleika bænda eftir kuldakastið í júní, strandveiðar, eignarhald og gagnsæi í sjávarútvegi og dýravelferðarmál.

Bjarkey setti upp skrifstofur og viðtalstíma víða um land, meðal annars á Austurlandi. Hún segir því hafa verið vel tekið og það sé hennar skoðun að ráðherrar þurfi í auknum mæli að fara til fólksins.

Bjarkey segir hlutina í stjórnmálunum oft hanga hægar en vænst er til og til að fylgja eftir hagsmálum dreifbýlis þurfi sterkar raddir. Þá bíði nýrrar ríkisstjórnar og þings vandasöm verk.

Að lokum þakkar Bjarkey sérstaklega fjölskyldu sinni stuðninginn en hún segist hafa farið norður til hennar á Ólafsfjörð nær nánast hverja helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar