Skip to main content

Bæjarráð vill Hannes aftur til starfa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. apr 2010 14:45Uppfært 08. jan 2016 19:21

Fulltrúar í bæjarráði Fjarðabyggðar samþykktu nýverið áskorun til heilbrigðisráðherra um að leita leiða til að starfskraftar Hannesar Sigmarssonar, heilsugæslulæknis á Eskifirði, nýtist áfram íbúum Fjarðabyggðar.

 

Image„Heilsugæsla á Eskifirði var með ágætum í hans tíð og íbúar hafa verið sáttir við hana. Ítrekaðar rannsóknir hafa ekki leitt í ljós tilefni til ákæru vegna starfa Hannesar í heilsugæslu Fjarðabyggðar. Bæjarráð telur að starfsmannamál beri að leysa eftir þeim leiðum sem lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Minnt er á að góð heilsugæsla er einn grundvallarþátturinn í velferð og öryggiskennd íbúa,“ segir í ályktuninni sem undir skrifa Guðmundur Þorgrímsson, Díana Mjöll Sveinsdóttir og Jens Garðar Helgason.

Hannesi var vikið frá störfum fyrir rúmu ári vegna gruns um að hann hefði ekki fært reikninga vegna vinnutíma rétt. Málið var kært til lögreglu sem sá ekki ástæðu til að ákæra Hannes þar sem ekki væri líklegt að ákæran endaði með sakfellingu.

Í lok seinasta árs var Hannesi sagt upp störfum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á grundvelli reglna um opinbera starfsmenn. Formaður Læknafélags Íslands hefur síðan lýst þeirri skoðun sinni að uppsögnin sé ólögleg þar sem Hannes hafi ekki áður fengið skriflega áminningu.