Bjóða 99% afslátt af flugferðum fyrir börn yngri en 11 ára næstu tvo mánuði
Flugfélagið Icelandair býður þessa stundina og fram til miðnættis í kvöld hvorki meira né minna en 99% afslátt af innanlandsflugi fyrir börn milli tveggja og ellefu ára aldurs í október og nóvember. Afsláttarkjörin gilda þó aðeins fyrir börnin á tveimur dýrari fargjaldaflokkum flugfélagsins en ekki þeim ódýrasta og einungis ef fullorðinn er með í för.
Munar efalítið um minna fyrir barnafólk sem þarf að fljúga á næstunni innanlands en töluvert er um liðið síðan slíkt tilboð var síðast í boði hjá flugfélaginu. Voru þessi fargjöld gjarnan kölluð krónufargjöld áður fyrr að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, og það er einmitt kóðinn, KRONA, sem þarf að fylla út til að njóta afsláttarkjaranna við bókun.
„Við höfum reglulega boðið upp á góð tilboð fyrir börn en áður var þetta kallað krónutilboð. Það hefur verið mikil ánægja með þetta í gegnum tíðina og ávallt margir sem nýta sér þetta góða tilboð. Börn nýta innanlandsflugið mikið til þess að hitta ættingja og vini í öðrum landshlutum en við höfum líka tekið eftir því að margir nýta sér þetta tilboð til þess að taka börnin með þegar sinna þarf erindum á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Við bjóðum alltaf afsláttarverð fyrir börn en svo viljum við einnig bjóða þetta góða tilboð af og til.“
Flugfargjöld innanlands hafa hækkað verulega allt þetta ár eins og lesa má meðal annars um hér. Það munar því sannarlega um afslætti á barnafargjöldum ef fjölskyldan á erindi annað í landinu í október eða nóvember.
Heilt yfir býður Icelandair þó alltaf afslátt af flugfargjöldum fyrir börn yngri en ellefu ára en afsláttarkjörin mismunandi eftir aldri barnanna. Hafa skal í huga að afslátturinn nær ekki til opinberra gjalda og skatta sem fargjaldinu fylgja.