Bjóða Vopnfirðingum að sækja sér mjólk

Félagsbúið Engihlíð í Vopnafirði hefur boðið Vopnfirðingum að koma og sækja sér mjólk. Ekki hefur verið sótt mjólk þangað frá því fyrir helgi vegna ófærðar.

„Það var ekki hægt að sækja til okkar í gær og þá var ljóst að ekki yrði hægt að gera það í dag heldur. Við erum í hámarksframleiðslu núna þannig við erum að drukkna í mjólk.

Þess vegna datt okkur í hug að bjóða upp á þetta. Við megum gefa mjólkina frá okkur svona,“ segir Gauti Halldórsson, bóndi í Engihlíð.

Hann segir að undanfarið hafi fólk úr nágrenninu, einkum af erlendum uppruna, sýnt áhuga á að fá mjólk frá Engihlíð og gera úr því osta og fleiri mjólkurvörur. Þess vegna hafi hugmyndin komið upp þegar tankarnir tóku að fyllast í gær.

„Það komu nokkrir í gær. Í dag er kolvitlaust veður. Við erum að reyna að koma þessu í kálfa, öðru þarf að hella niður. Það þýðir þó ekkert að kvarta, svona er þetta,“ segir Gauti.

Ófært er um bæði Sandvíkurheiði og Vopnafjarðarheiði til Vopnafjarðar í dag. Ófærð er víðar á Austurlandi. Möðrudalsöræfi eru lokuð og þá hefur verið gefið út að Fjarðarheiði verði ekki opnuð í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar