Björgunarsveitarbíllinn brann til kaldra kola

Talsvert tjón varð á Breiðdalsvík aðfaranótt sunnudags þegar bifreið björgunarsveitarinnar Einingar brann til kaldra kola. Annar nálægur skemmdist einnig.

„Hann virðist hafa kveikt í sér sjálfur, einn og yfirgefinn um miðja nótt,“ segir Hrefna I. Melsteð, formaður sveitarinnar.

Bíllinn stóð við bílaverkstæði bæjarins en endurbætur hafa staðið yfir á honum í nokkurn tíma. Annar bíll sem stóð þar hjá skemmdist einnig í eldinum. Upptök eldsins eru ókunn. Slökkvilið staðarins kom á vettvang en of seint til að geta bjargað björgunarsveitarbílnum.

Um var að ræða töluvert breytta Landrover-bifreið sem björgunarsveitin hefur átt í um 20 ár. Hrefna segir tjónið töluvert þótt hann hafi verið tryggður með kaskótryggingu. „Við fáum bílinn bættan en svo er spurning hvað það kostar að kaupa nýjan svo auðvitað er þetta mikið tjón fyrir okkur.“

Hrefna segir næstu skref enn óráðin, verið sé að vinna í tryggingamálum og fleiru eftir brunann, en björgunarsveit úr Reykjavík hafi boðið Einingu að fá lánaðan bíl meðan greitt sé úr málunum. „Við reiknum með að þiggja það,“ segir hún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar