Björgunarsveitir til hjálpar ferðafólki: Vesen með bíla á sumardekkjum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. maí 2012 16:27 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Austfirskar björgunarsveitir hafa verið kallaðar nokkrum sinnum út undanfarinn sólarhring til að aðstoða ferðafólk.
Eining á Breiðdalsvík sótti í morgun bíl sem var fastur í Suðurdal. Á Fjarðarheiði fór björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði til aðstoðar bílum sem runnið höfðu út af veginum og fest sig þar.
Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði. Á vef Landsbjargar er haft eftir Ísólfsmönnum að undanfarna daga hafi þurft að aðstoða ökumenn á bílum sem komnir eru á sumardekk. Ítreka þeir að þannig búin ökutæki eigi ekkert erindi í ófærð.
Í gær var Vopni á Vopnafirði kölluð út þar sem hestamaður hafði ekki skilað sér heim en talið var að hann væri á Brekknaheiði. Fljótlega eftir að sveitin var farin til leitar þá skilaði hann sér til byggða heill á húfi.