Björn Ingimars: Við krefjumst þess að stjórnvöld tryggi þá löggæslu sem til þarf
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segist treysta því að stjórnvöld standi við bakið á sveitarfélaginu og styrki löggæsluna í baráttunni gegn skipulögðum glæpum. Lögreglan óttast að vélhjólagengi vilji koma á fót starfsemi á Egilsstöðum. Björn segir að spyrnt verði við þeim með samstilltu átaki með íbúum.
„Við munum virkja félagasamtök og íbúa til að sporna gegn þessu. Réttu viðbrögðin að okkar mati felast í því að taka ákvarðanir með upplýstum hætti og funda opið með bæjarbúum um þessi mál,“ segir Björn í vikublaðinu Austurglugganum.
Bæjarstjórar Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar ræddu málið á fundi nýverið og til stendur að funda með Seyðfirðingum, en gengin eru sögð hafa mikinn áhuga á flutningaleið fyrir fíkniefni með Norrænu. Íbúafundur verður síðan haldinn á Fljótsdalshéraði fljótlega eftir páska.
Lögregluyfirvöld eru að auki væntanleg austur til funda. Haft er eftir Birni að Fljótsdalshérað geri tilkall til þess að stjórnvöld tryggi þá löggæslu sem til þarf.
„Það er verið að ræða um þetta svæði (Austurland) sem mögulegan áfangastað slíkra samtaka og við því verðum við að bregðast.“