Björn Valur: Reglur um fléttulista höfðu áhrif

bjorn_valur_gislason_web.jpg
Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, segir að reglur um fléttulista hafi verið meðal þess sem höfðu áhrif á ákvörðun hans að flytja sig úr Norðausturkjördæmi til Reykjavíkur fyrir komandi þingkosningar.

„Reglur um fléttulista á landsbyggðinni höfði áhrif á þessa ákvörðun mína ásamt ýmsu fleiru,“ er haft eftir Birni Val í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hann er að öðru leyti sagður litlar upplýsingar hafa viljað veita um ástæður vistaskiptanna.
 
Á bloggsíðu sinni segir Björn þó að hvatning frá stuðningsfólki VG í Reykjavík hafi haft mest áhrif á kvörðunina sem og „góður stuðningur og ráðgjöf minna góðu félaga í NA-kjördæmi.“ 
 
Björn Valur tók sæti á Alþingi 2009 eftir að hafa verið í þriðja sæti á listanum. Þuríður Bachman, sem var í öðru sæti, ætlar ekki að bjóða sig fram aftur.

Eyfirðingarnir Bjarkey Gunnarsdóttir og Sóley Stefánsdóttir hafa lýst yfir áhuga sínum á öðru sætinu. Í morgun staðfesti Ingibjörg Þórðardóttir, kennari við Verkmenntaskóla Austurlands, að hún byði sig fram í það sæti. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar