Blak: Þróttur tapaði fyrsta leik gegn KA í úrslitakeppninni
Karlalið Þróttar Neskaupstað tapaði í gærkvöldi fyrsta leik sínum gegn KA í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í blaki.Þrótti gekk best í fyrstu hrinu, náði mest fjögurra stiga forskoti, 14-10 og leiddi upp í 22-21. Þá skoraði KA fjögur stig í röð og vann hrinuna 22-25.
Þróttur var yfir 10-7 í annarri hrinu en átti þá slæman kafla, KA komst í 16-22 og kláraði hrinuna 21-25.
Þróttur byrjaði þriðju hrinu illa. Leikur liðsins lagaðist eftir að þjálfarinn Atli Freyr Björnsson tók leikhlé í stöðunni 4-10. Þróttur jafnaði í 17-17 og áfram hélst jafnt upp í 22-22. KA skoraði þó alltaf á undan og gerði að lokum út um bæði hrinuna og leikinn með þremur stigum í röð.
Raul Garcia Asensio var stigahæstur Þróttar með 12 stig en Jose Federico Martin skoraði tíu. Miðað við tölfræðigreiningu leiksins þá munaði litlu á liðunum nema að sóknarleikur KA gekk heldur betur miðað við að liðið skoraði fleiri stig úr smössum.
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit en liðin mætast næst á Akureyri á föstudag.
Kvennalið Þróttar spilar í kvöld fyrsta leik sinn við HK í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í Kópavogi. Liðin mættust tvisvar í deildakeppninni og vann HK báða þá leiki nokkuð örugglega.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigríður Þrúður