Bleikju og urriða fækkar í Lagarfljóti eftir virkjun

karahnjukar.jpgBleikjuveiði hefur minnkað í Lagarfljóti eftir að Kárahnjúkavirkjun kom til skjalanna. Vísbendingar eru um að auknu gruggi í fljótinu sé um að kenna. Annars staðar hafa myndast nýjar veiðilendur með í kjölfar vatnaflutninga.

 

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Veiðimálastofnunar á fiskum á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsá á Dal, Gilsár og Fögruhlíðaráar.

Minna veiddist af bleikju við Egilsstaði og Hallormstað í fyrra sumar en í samanburðarrannsóknum árin 1998, 2005 og 2006. Þá veiddust tvöfalt fleiri bleikjur við Egilsstaði en Hallormsstað en þær voru jafn margar í fyrra. Færri urriðar veiddust einnig og var fækkunin hlutfallslega meiri við Egilsstaði.

Skýrsluhöfundar telja líklegt að minni veiði tengist meðal annars breytingum í gruggi og þar með frumframleiðni og fæðuframboði fyrir fisk í Lagarfljóti.

Í rannsóknunum 2005 og 2006 var nokkuð af vorflugulirfum/lirfuhúsum og vatnabobbum í maga beggja fisktegundanna. Ekkert varð vart við þessar fæðutegundir í rannsókninni 2010. Skýrsluhöfundar segja frekari rannsóknir þurfa til svo hægt sé að meta hvort þetta endurspegli raunverulega breytingu í fæðuframboði.

Grugg í Lagarfljóti jókst verulega þegar Jökulsá á Dal var veitt í Fljótið með Kárahnjúkavirkjun. Við það minnkar gagnsæi vatnsins. Rennsli í fljótinu hefur einnig aukist. Rýni er notuð til að mæla hversu langt ljós nær niður í vatn.

Við Egilsstaði mældist rýni í eldri rannsóknum 24-60 sentímetrar en 15 sm í ágúst 2010. Við Hallormsstað minnkaði rýnið úr 19-26 sm í 18 sm. Í skýrslunni er samt bent á að grugg í Lagarfljóti geti verið nokkuð breytilegt milli ára.

Á vatnasviði Jökulsár á Dal hefur veiðinýting aukist samhliða minnkun jökulvatns í ánni. Laxaseiðum hefur undanfarin ár verið sleppt í hliðarár árinnar. Seiðum hefur einnig verið sleppt í Eyvindará á vatnasviði Lagarfljóts.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.