Boða að húsin við Skólaveg verði byggð fyrir haustið

Fylkir ehf., sem á húsgrunna að Skólavegi 98-112 á Fáskrúðsfirði, stefnir á að byggja húsin fyrir haustið. Grunnarnir hafa staðið óhreyfðir í rúman áratug.

Þetta kemur fram í bréfi frá fyrirtækinu til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar en Fylkir hefur samið við austfirskan verktaka um að annast byggingarnar. Það mun leggja til byggingarstjóra en meistarar og iðnaðarmenn koma af svæðinu.

Í bréfinu kemur fram að fulltrúar fyrirtækisins hafi farið austur í lok apríl og fundað þá bæði með verktakanum og forráðamönnum fyrirtækis á staðnum sem hafi áhuga á að kaupa eða leigja húsin.

Byrjað var á húsunum árið 2006 á vegum Fjárfestingarfélags Austurbyggðar. Þar áttu að rísa 16 raðhús en félagið fékk alls úthlutað 26 lóðum fyrir allt að 50 íbúðir. Húsin átti að vera tilbúin snemma árs 2007 en félagið varð gjaldþrota og sökklarnir voru á hrakhólum um árabil áður en Fylkir ehf. keypti þá.

Fáskrúðsfirðingar hafa ekki verið ánægðir með hálfkláruð húsin og þrýst á um úrbætur. Í bréfi Fylkis er beðist velvirðingar á töfunum en þar kemur fram að kostnaður félagsins af verkinu sé þegar orðinn 15 milljónir króna og því ekki seinna vænna að ljúka því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.