Boðað til verkfalls á leikskólanum á Reyðarfirði

Félagar í félagi leikskólakennara, sem starfa á leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði, hafa boðað til verkfalls frá og með 10. desember.

Atkvæðagreiðsla fór fram um verkfallsboðunina á fimmtudag og föstudag. Sjö félagar voru á kjörskrá og greiddu þeir allir atkvæði með vinnustöðvuninni. Hún er ótímabundin.

Félög kennara hafa staðið fyrir staðbundnum verkföllum frá því í lok október til að þrýsta á um gerð kjarasamnings. Til þessa hefur ekki komið til verkfalla á Austurlandi, en fyrir helgina samþykktu kennarar í Egilsstaðaskóla verkfall frá 6. – 31. janúar.

Verkföllin eru háð því að ekki hafi verið samið áður en til þeirra kemur. Samninganefndir sveitarfélaga og kennara hafa fundað hjá ríkissáttasemjara síðustu daga. Það gefur vísbendingar um að heldur þokist í samningsátt en engar frekari upplýsingar berast um viðræðurnar vegna fjölmiðlabanns sem sáttasemjari setti á deiluaðila.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar