Þrjú snjóflóð féllu úr Grænafelli í nótt

Þrjú snjóflóð féllu úr Grænafelli í nótt. Vegna þeirra var beðið með mokstur yfir Fagradal þar til undir hádegi. Þokkalega stórt flóð féll í Vattarnesskriðum í gær. Snjóflóðahætta er talin liðin hjá í bili.

Vitað er um fimm snjóflóð á Austurlandi eftir gærdaginn og nóttina. Þeirra stærst er flóðið sem féll í Vattarnesskriðunum. Það fór yfir veg og er hann lokaður. Eins féll flóð í Kambanesskriðum í gærkvöldi.

Þrjú flóð féllu úr giljum í Grænafelli. Einhver þeirra náðu niður á veginn, en flóð þurfa ekki að vera stór þar þannig að slettist úr þeim niður á akbrautina.

Snjóflóðavöktun var aukin hjá Veðurstofunni í veðrinu sem gekk yfir Austfirði um helgina. Aldrei var talin hætta í byggð. Mesta ógnin er talin gengin yfir núna og snjóflóðaeftirlitsfólk farið á stúfana til að kanna stöðuna.

„Undanfarinn einn og hálfan sólarhring hefur staðið yfir norðaustanáhlaup. Það hefur safnast snjór til fjalla en ekkert í líkingu við það sem var í snjóflóðahrinunni í mars í fyrra. Við sjáum núna að það virðist hafa skafið úr fjöllunum þótt snjór hafi safnast í byggð.

Núna er kominn éljagangur sem gengur niður í dag og það er ekkert meira veður á leiðinni strax. Vindurinn snýr sér í kvöld og þá minnkar hættan enn frekar. Snjóþekjan styrkist hratt þegar veðrinu slotar,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hún segir viðbúið að tilkynningar berist um fleiri snjóflóð í dag þegar betur sést til fjalla. Fimbulkulda er spáð á morgun en seinni part þriðjudags er aftur von á úrkomu sem líklega fellur sem snjór til fjalla. Sigurdís segir þess vegna að tíminn þangað til verði nýttur til að kanna stöðugleika í þeim snjóalögum sem komin eru og afla frekari gagna til að vita hvaða áhrif væntanleg lægð kann að hafa.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.