Þrjú snjóflóð féllu úr Grænafelli í nótt
Þrjú snjóflóð féllu úr Grænafelli í nótt. Vegna þeirra var beðið með mokstur yfir Fagradal þar til undir hádegi. Þokkalega stórt flóð féll í Vattarnesskriðum í gær. Snjóflóðahætta er talin liðin hjá í bili.Vitað er um fimm snjóflóð á Austurlandi eftir gærdaginn og nóttina. Þeirra stærst er flóðið sem féll í Vattarnesskriðunum. Það fór yfir veg og er hann lokaður. Eins féll flóð í Kambanesskriðum í gærkvöldi.
Þrjú flóð féllu úr giljum í Grænafelli. Einhver þeirra náðu niður á veginn, en flóð þurfa ekki að vera stór þar þannig að slettist úr þeim niður á akbrautina.
Snjóflóðavöktun var aukin hjá Veðurstofunni í veðrinu sem gekk yfir Austfirði um helgina. Aldrei var talin hætta í byggð. Mesta ógnin er talin gengin yfir núna og snjóflóðaeftirlitsfólk farið á stúfana til að kanna stöðuna.
„Undanfarinn einn og hálfan sólarhring hefur staðið yfir norðaustanáhlaup. Það hefur safnast snjór til fjalla en ekkert í líkingu við það sem var í snjóflóðahrinunni í mars í fyrra. Við sjáum núna að það virðist hafa skafið úr fjöllunum þótt snjór hafi safnast í byggð.
Núna er kominn éljagangur sem gengur niður í dag og það er ekkert meira veður á leiðinni strax. Vindurinn snýr sér í kvöld og þá minnkar hættan enn frekar. Snjóþekjan styrkist hratt þegar veðrinu slotar,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Hún segir viðbúið að tilkynningar berist um fleiri snjóflóð í dag þegar betur sést til fjalla. Fimbulkulda er spáð á morgun en seinni part þriðjudags er aftur von á úrkomu sem líklega fellur sem snjór til fjalla. Sigurdís segir þess vegna að tíminn þangað til verði nýttur til að kanna stöðugleika í þeim snjóalögum sem komin eru og afla frekari gagna til að vita hvaða áhrif væntanleg lægð kann að hafa.
Mynd: Unnar Erlingsson