Skip to main content

Boðið til íbúafundar í Neskaupstað um viðbrögð við ofanflóðahættu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. okt 2024 17:44Uppfært 22. okt 2024 17:46

Fjölmargir þjónustu- og viðbragðsaðilar bjóða íbúum Neskaupstaðar og nágrennis til fundar í kvöld um nýjastu upplýsingar um viðbrögð við ofanflóðum. Þar kynnt mikil vinna sem unnin hefur verið upp á síðkastið til að tryggja öryggi íbúa og vegfarenda.

Fundurinn fer fram í Nesskóla og hefst klukkan 20 í kvöld en á meðal þeirra sem halda þar erindi er lögregla og tengdir viðbragðsaðilar sem hafa endurskoðað rýmingar og vegalokanir ef til hættu kemur og kynna þær fyrir íbúum.

Aðrir aðilar á svæðinu fara yfir stöðuna af sinni hálfu. Þar á meðal forstöðumaður skíðasvæðisins í Oddsskarði, kynnt verða ný rýmingarkort og breytingar á snjóflóðaeftirlit af hálfu Fjarðabyggðar og Veðurstofu Íslands, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jóna Árný Þórðardóttir, fer yfir þær breytingar sem orðið hafa á ýmsum samvinnuverkefnum þessum málum tengdum frá síðasta íbúafundi og síðast en ekki síst þá mun Síldarvinnslan kynna sínar viðbragðsáætlanir ef til almannavarnarástands kemur með tilliti til björgunar á verðmætum og tækjum.

Fyrsti dagur vetrar þetta árið gengur í garð um helgina þann 26. október og næstu mánuðir umhleypingasamir eins og gengur þann tíma á Íslandi með tilheyrandi frosti, snjó og ýmsum hættum því samfara.