Boðið upp á súrmat í tunnubúrinu

Gestum, sem heimsækja Minjasafnið á Bustarfelli gefst nú tækifæri á að smakka íslenskan súrmat í gamla tunnubúrinu. Smakkið er liður í að reyna á sem flest skilningarvit gesta.

„Það var einhver sem spurði hvort ég ætlaði ekki að hafa súrmatinn til sölu á kaffihúsinu. Ég vildi miklu frekar að fólk fengi að upplifa matinn hér í tunnubúrinu þar sem hann var geymdur.

Þannig getur fólk frekar ímyndað sér hvernig var að búa hérna og færa sig nær íbúum safnsins í sumar,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir sem rekur kaffihúsið Hjáleiguna við hlið Bustarfellsbæjarin og býður upp á smakkið.

Á safninu á Bustarfelli hefur í gegnum tíðina verið lagt upp úr því að virkja ýmis skilningarvit, þar er vitaskuld mest fyrir augun en einnig hefur verið reynt á heyrnina. Berghildur segir að ýmsar hugmyndir séu uppi, svo sem að hengja upp hangikjöt í rjáfri hlóðaeldhússins til að virkja lyktarskynið en þetta er fyrsta sumarið þar sem súrmaturinn er í boði.

Þá er einnig hægt að bæta við mat en sem stendur er í boði súr blóðmörk, lifrarpylsa, sviðasulta og mysa. Viðbrögð gesta eru stundum blendin.

„Fólki finnst ægilega gaman að sjá þetta. Sumir þora alls ekki að prófa, aðrir þefa af smakkinu og svo lendir það í ruslinu. Aðrir eru hugaðir og stinga bitanum upp í sig. Íslendingarnir eru vanir þessum mat, það liggur við að þá þurfi að stoppa af.

Þetta verður þó til þess að gestir far að spyrja meira. Þeir vilja vita hvernig maturinn hafi verið búinn til, hvort hann hafi verið í þessum tunnum. Þá fær maður þetta vá. Það er best, þegar fólk getur samsamað sig safninu og skilur það frá hjartarótum.“

Safnið er opið til 20. september en á laugardag verður haldin haustgleði við Bustarfell með dagskrá sem teygir sig yfir allan daginn og fram á kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.