Börnin á leikskólanum Eyrarvöllum í sérstakri bragðlaukaþjálfun

Bragðlaukaþjálfun kallast sérstakt rannsóknarverkefni sem meðal annars fer fram meðal barnanna á leikskólanum Eyrarvöllum í Neskaupstað en þar er leitað leiða til að venja börnin af matvendni hvers kyns.

Það er heimamaðurinn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir sem leiðir þessa rannsókn sem er gerð í góðri samvinnu við starfsfólk skólans og foreldra barnanna.

Verkefnið felst í að reyna að vinna bug á matvendni barnanna með markvissri þjálfun og nýta til þess öll skynfæri líkamans. Berglind hefur þegar reynslu af svipaðri rannsókn fyrir nokkrum árum síðan meðal barna frá átta ára aldri til tólf ára aldurs. Á leikskólum er meðalaldurinn eðlilega nokkru lægri en það.

Tíu vikna rannsókn

Verkefnið er viðamikið og tekur tíu vikur alls að sögn Berglindar en fimm vikur eru þegar liðnar. Ekki aðeins er hún að kanna hvort ráða megi bug á matvendi barnanna heldur og hvort munur geti verið á matvendi á landsbyggðinni samanborið við höfuðborgina.

„Það liggur ekkert fyrir um það á þessu stigi en það er kannski ekki fráleitt að kanna það þó ekki sé nema vegna þess að aðgengi að ferskmeti, ávöxtum og grænmeti, er mismunandi og kannski spilar það einhvern þátt. Annars gengur verkefnið út á að leyfa börnunum að leika sér með matinn aðeins og upplifa hann á nýjan máta með skynfærunum. Það er sannað að matvendni er langmest meðal tveggja til sex ára barna og ekki óþekkt meðal foreldra að segja að börnin hætti bara að borða ýmsan mat um tveggja ára aldurinn. Það helgast af þróunarsögunni að einhverju leyti. Það er á þessum aldri sem börnin eru að finna hjá sér sjálfstæði og fyrr á tímum var þetta aldurinn þar sem börnin fóru að komast á legg og geta bjargað sér sjálf að einhverju leyti.“

Lykt, snerting og hlustun

Berglind leggur áherslu á að börnin séu alls ekki þvinguð til eins né neins heldur aðeins reynt að fá þau til að líta á ýmsan mat með öðrum augum.

„Þetta snýst um tvö til þrjú verkefni sem börnin gera í hverri viku sem öll tengjast því að upplifa mat gegnum skynfærin sín. Markmiðið ekki endilega að þau borði matinn heldur fái að snerta hann, hlusta á hann, þefa og þess háttar. Það til dæmis mikill munur á að bíta í hráa rófu og soðna rófu og mismunandi hljóð sem fylgja. Ýmsir matvæli kynnt fyrir börnunum og endurtekin kynning kyndir vonandi undir að börnin prófa að smakka á endanum.“

Fimm vikur eru enn eftir af rannsókninni og í kjölfarið mun Berglind skrifa ritgerð um áhrif verkefnisins. Úrvinnslan gagnanna mun þó taka töluverðan tíma.

Allsérstök rannsókn fer fram á leikskólanum Eyrarvöllum í Neskaupstað hvort hægt sé að ráða bót á matvendni ungra barna. Mynd Eyrarvellir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.