Borgarfjörður eystri einn af gæðaáfangastöðum Evrópu

borgarfjrur2_vefur.jpg
Borgarfjörður eystri var nýverið tekinn inn í hóp evrópskra gæðaáfangastaða. Heimamenn segja þetta mikla viðurkenningu á því uppbyggingarstarfi sem unnið hafi verið í ferðamálum á staðnum.

„Þetta er mikil viðurkenning á því mikla starfi sem búið er að vinna í Borgarfjarðarhreppi undanfarin ár og áratugi og þar spilar margt saman. Ferðamálahópurinn hefur lagt mikla vinnu í gönguleiðasvæðið á Víknaslóðum og markaðssetningu þess,“ segir ífrétt á borgarfjordureystri.is.

„Sveitarfélagið unnið uppbyggingu á tjaldsvæðis og markaðssetningu smábátahafnarinnar og svo hefur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs unnið ótrúlega öflugt og óeigingjarnt starf á Víkum með byggingu gönguskálanna svo fátt eitt sé talið upp. Þess fyrir utan eru ferðaþjónustuaðilar innan fjarðar öflugir og hafa gjörbreytt ásýnd svæðisins á skömmum tíma.“

Evrópuverkefnið ber yfirskriftina „European Destination of Excellence (EDEN).“ Markmið þess er að vekja athygli á „gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.“

Aðildin leggur engar kvaðir á Borgfirðinga en þeir mega framvegis nota merki EDEN í allri markaðssetningu. Önnur svæði á Íslandi sem hafa fengið aðild að EDEN eru Vestfirðir, Stykkishólmur og Húsavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar