Borgarholtsskóli sló VA út í Gettu Betur

Gettu Betur lið Verkmenntaskóla Austurlands var slegið úr keppni í miður spennandi keppni á móti liði Borgarholtsskóla í kvöld.

 

Í fyrstu umferð Gettu Betur þetta árið atti lið Verkmenntaskóla Austurlands kappi við lið Fjölbrautarskóla Suðurnesja í æsispennandi keppni. Hún endaði í bráðabana þar sem lið VA sló út lið FS á hetjulegan hátt í stöðunni 10-9.

Annað mátti segja um 2. umferð þar sem lið VA keppti við lið Borgarholtsskóla. Ef sú umferð hefði verið VA í vil hefði leiðin legið beint upp í Efstaleiti þar sem 3. umferð Gettu Betur er haldin, en svo var ekki. Lið Verkmenntaskólans sá aldrei til sólar í viðureign sinni við lið Borgarholtsskóla, en keppnin fór 20-7 Borgarholtsskóla í vil. Lið Borgarholtsskóla er því komið áfram í sjónvarpið en lið VA situr eftir með sárt ennið. Í liði Verkmenntaskólans voru þau Húnbogi Gunnþórsson, Katrín Hulda Gunnarsdóttir og Guðjón Björn Guðbjartsson.

Fyrir áhugasama má þess geta að lið Menntaskólans á Egilsstöðum keppir við lið Menntaskólans í Hamrahlíð næstkomandi þriðjudag á Rás 2. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar