Borgfirðingar safna undirskriftum fyrir bættum veg: Við viljum ekki leggjast í eyði

Íbúar á Borgarfirði eystra hafa hrundið af stað söfnun undirskrifta til stuðnings málstað sínum fyrir bættum veg til staðarins. Talsmaður söfnunarinnar vonast til að baráttan skili því að Borgfirðingar fái áheyrn ráðamanna.

Yfir 1600 manns hafa skrifað undir hina rafrænu undirskriftasöfnun sem fór af stað um miðja síðustu viku í kjölfar þess að Borgfirðingar hófust sjálfir halda við að steypa veg um Njarðvíkurskriður.

Af 70 km leið milli Borgarfjarðar og Egilsstaða eru 28 km malarvegur sem á köflum er í mjög vondu ástandi og þolir engan vegi umferðina á álagstímum. „Við linnum ekkert látum fyrr en vegurinn er komin á dagskrá,“ segir Eyþór Stefánsson, talsmaður undirskriftasöfnunarinnar.

Vilja fá samgöngunefnd í heimsókn

Borgfirðingar segja að vegbótum þeirra hafi ítrekað verið ýtt aftar í forgangsröðina fyrir aðrar framkvæmdir svo sem Vaðlaheiðargöng, Dettifossveg og göng á Húsavík sem allar séu á Norðurlandi.

„Við virðumst vera of langt frá Norðurlandi til að þingmenn kjördæmisins hafi áhuga á okkur. Því biðlum við til landa okkar um að hjálpa okkur. Við erum fá. Við viljum ekki leggjast í eyði,“ segir í texta undirskriftasöfnunarinnar.

Áætlað er að hitta samgönguráðherra og afhenda honum undirskriftirnar um miðjan mars. „Næstu skref eru vonandi að hitta einhverja sem hafa eitthvað um málið að segja, einhverja sem ráða og bera ábyrgð.

Vonandi fáum við fund með samgönguráðherra og svo eru uppi hugmyndir um að bjóða umhverfis- og samgöngunefnd í heimsókn. Ef þau fengjust til að koma keyrandi til okkar væri nánast öruggt að vegurinn kæmist á dagskrá því þau þyrftu sjálf að prófa að fara um hann,“ segir Eyþór.

Fyrsta orrustan um Njarðvíkurskriðurnar

Þrýstingur Borgfirðinga nú kemur í kjölfar þess að verkefninu Brothættar byggðir var hleypt af stokkunum þar fyrir tveimur vikum en samgöngumál voru þar ofarlega á forgangsröðinni. Eins er framundan umræður um fjármálaáætlun ríkisins á Alþingi og framkvæmdir við rafmagns- og fjarskiptastrengi um skriðurnar sem áformaðar eru í sumar.

„Við gætum sagt að fyrsta orrustan væri unnin ef farið yrði í vegagerð í Njarðvíkurskriðum í sumar meðfram öðrum framkvæmdum þar. Stríðinu væri hins vegar langt í frá lokið,“ segir Eyþór.

Hann segir Borgfirðinga ánægða með viðtökur við mótmælum þeirra í síðustu viku og undirskriftasöfnuninni. „Flestir fjölmiðlar hafa gert okkur góð skil og erum við þakklát. Vonandi heldur sú umfjöllun áfram. Vonandi verður þessi umfjöllun til þess að það verði óþarfi fyrir okkur að fara í frekari steypuframkvæmdir

Viðtökurnar við undirskriftalistunum hafa verið framar vonum. Meira en tífaldur fjöldi íbúa staðarins hafa nú þegar skrifað undir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.