Borgfirðingum ráðlagt að sjóða neysluvatn
Íbúum á Borgarfirði eystra hefur verið ráðlagt að sjóða neysluvatn sitt eftir að mengun greindist í því. Slíkt hefur áður gerst eftir mikla úrkomutíð. Koma þarf upp öflugri mengunarvörnum til framtíðar.Í tilkynningu frá HEF veitum ehf. Í morgun segir að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að neysluvatnið á Borgarfirði sé menguð af saurgerlum og E.coli gerlum. Það gefur til kynna að það sé mengað af saur frá mönnum eða blóðheitum dýrum.
Í byrjun í október 2023 þurftu Borgfirðingar að sjóða vatn sitt eftir að sambærileg mengun kom þar upp. „Væntanlega hefur yfirborðsvatn komist í lindirnar eftir mikla úrkomu. Samkvæmt okkar upplýsingum hefur það gerst reglulega og væntanlega alla tíð,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, forstjóri HEF veita.
Eftir atvikið í fyrra var bætt úr girðingum á vatnstökusvæðinu til að hindra að dýr kæmust nálægt því. Aðalsteinn segir að staðan nú sýni að það dugi ekki til og því þurfi að fara í frekari aðgerðir. „Við áttum í samtali við Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) í fyrra og það var metið að ekki þyrfti tafarlausar aðilar.
Við höfum tekið það samtal upp aftur og í framhaldi af því erum við að undirbúa ráðstafanir til að setja upp gegnumlýsingu á vatnið, sem drepur gerlana. Það tekur sinn tíma.“
Sjóða þarf vatn fyrir neyslu en óhætt á að vera að nota það til annarra nota, svo sem baða, þvotta og til að skola matvæli fyrir eldun. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu HEF.
Í fyrra giltu tilmælin í tvær vikur. Aðalsteinn segir líklegt að svo verði einnig nú. „Það eru engar töfralausnir heldur þarf mengunin að ná að skolast út. Það eru litlar líkur á að það gangi neitt hraðar nú.“