Brekkuþorp í Mjóafirði síðasti byggðakjarninn til að tengjast ljósleiðara

Nýr veruleiki blasir við Mjófirðingum því íbúar í Brekkuþorpi hafa nú aðgengi að ljósleiðaratengingu. Áfanganum var fagnað með heimsókn samgönguráðherra þangað á föstudag. Ráðherrann vonar að betri og öruggari fjarskiptatenging efli búsetuskilyrði í firðinum.

„Það er ánægjuefni að vera með ykkur hér í dag. Þetta er gleðidagur fyrir okkur sem stefnum á að jafna aðstöðu íbúa um allt land,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgönguráðherra, í kaffisamsæti sem haldið var í félagsheimilinu Sólbrekku í tilefni dagsins.

Þrýstingur á að koma fjarskiptamálum Mjófirðinga í lag jókst verulega eftir að rafmagnslínan frá Seyðisfirði slitnaði í mikilli hæð í óveðri árið 2014. RARIK fór þá að koma raflínum í jörð og úr varð að Neyðarlínan nýtti tækifærið til að leggja ljósleiðara þangað.

Fjarskiptamál Mjófirðinga hafa verið óörugg um árabil. Í þorpinu stendur fjarskiptamastur og úr því berast boð upp í annað mastur á Mjóafjarðarheiði. Á vetur hefur brugðið við að sendingarnar hafa fallið niður. Þá rofnar samband bæði farsíma- og heimasíma jafnt innan fjarðarins, sem við umheiminn.

„Markmiðið er að koma á öruggum samskiptum. Vonandi þarf nú ekki lengur maður, sem varð 75 ára í gær að hlaupa niður í skip til að tala í radíó þannig Mjófirðingar geti átt samskipti,“ sagði Sigurður Ingi og vísaði þar til Sigfúsar Vilhjálmssonar, bónda á Brekku í Mjóafirði.

„Öflug fjarskipti eru forsenda þess að við getum sagt með sanni að við getum valið okkur búsetu og starfað við hvað sem er, hvar sem er,“ bætti ráðherrann við.

Tenging Mjóafjarðar er hluti af landsverkefninu Ísland ljóstengt. Til stendur að halda áfram að leggja ljósleiðara yfir til Norðfjarðar til að tryggja hringtengingu.

Sigurður Ingi sagði að töluvert verk hefði verið að koma ljósleiðaranum til Mjóafjarðar. Að því verki hefði komið margir aðilar. Mjóafjarðarverkefnið var eitt þriggja sem í sumar fengu samanlagt rúmar 70 milljónir úr Fjarskiptasjóði. RARIK og Neyðarlínan lögðu strenginn auk þess sem fjarskiptafélagið Míla og sveitarfélögin Fjarðabyggð og Seyðisfjarðarkaupstaður tóku þátt í verkinu.

„Það hefur verið verið bras að koma þessu á. Það þurfti einbeitta aðila sem skildu hvorki orðin „nei“ né „erfiðleikar“,“ sagði hann.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðvar, var einn af þeim sem fagnaði áfanganum. „Við höfum líkt og íbúarnir haft áhyggjur af fjarskiptamálum, eða fjarskiptaleysi, í Mjóafiðri,“ sagði hann.

Hann rifjaði upp að á ýmsu hefði gengið við lagninguna. „Þegar ég fékk um það símtal í sumar að strengirnir sem komu til landsins væru ekki af réttri gerð féll mér allur ketill í eld. Ég trúði ekki að þetta væri ekki að fara að takast. En strengjunum var reddað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.