Breskur auðkýfingur kaupir jarðir í Vopnafirði

Fimmti ríkasti maður Bretlandseyja er orðinn umsvifamikill landeigandi í Vopnafirði. Þetta sýna gögn sem Austurglugginn hefur undir höndum og fjallað er um í blaðinu í dag.


Jarðirnar Síreksstaðir, Guðmundarstaðir og Háteigur voru seldar í október. Kaupin voru gerð í umboði Bill Reid, Breta með doktorsgráðu í efnafræði.

Í gegnum íslensk félög má rekja eignarhald jarðanna til Hallicilla Limited sem skrásett er í Bretlandi.

Reid er forsvarsmaður félagsins en samkvæmt gögnum frá Bretlandi er Jim Ratcliffe eini eigandi Hallicella.

Samkvæmt úttekt bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes er Ratcliffe fimmti ríkasti maður Bretlands og í 233. sæti á heimsvísu. Auður hans byggist á Ineos sem sérhæfir sig í efnavinnslu, einkum plasts og er með stafsemi víða um heim. Velta félagsins er meira en tvöföld landsframleiðsla Íslands.

Ratcliffe vakti athygli í júlí síðastliðnum þegar þrjár veglegar einkaþotur í eigu hans og félaga hans úr Ineos lentu á Egilsstaðaflugvelli.

Þá eiga félög í eigu Ratcliffe í Veiðiklúbbnum Streng ehf. sem aftur á átta jarðir í Vopnafirði að hluta eða heild. Stutt er síðan félögin keyptu sig inn í Veiðiklúbbinn.

Ekki er nýtt að veiðijarðir í Vopnafirði séu keyptar. Jóhannes Kristinsson, sem kenndur var við Fons og Iceland Express, hefur í rúman áratug verið umsvifamikill í landakaupum í Vopnafirði. Samtals eiga Jóhannes og Ratcliffe meirihluta í félögum sem eiga hluta eða heild í 23 af um 70 jörðum í Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.