Breskur auðkýfingur kaupir jarðir í Vopnafirði
Fimmti ríkasti maður Bretlandseyja er orðinn umsvifamikill landeigandi í Vopnafirði. Þetta sýna gögn sem Austurglugginn hefur undir höndum og fjallað er um í blaðinu í dag.
Jarðirnar Síreksstaðir, Guðmundarstaðir og Háteigur voru seldar í október. Kaupin voru gerð í umboði Bill Reid, Breta með doktorsgráðu í efnafræði.
Í gegnum íslensk félög má rekja eignarhald jarðanna til Hallicilla Limited sem skrásett er í Bretlandi.
Reid er forsvarsmaður félagsins en samkvæmt gögnum frá Bretlandi er Jim Ratcliffe eini eigandi Hallicella.
Samkvæmt úttekt bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes er Ratcliffe fimmti ríkasti maður Bretlands og í 233. sæti á heimsvísu. Auður hans byggist á Ineos sem sérhæfir sig í efnavinnslu, einkum plasts og er með stafsemi víða um heim. Velta félagsins er meira en tvöföld landsframleiðsla Íslands.
Ratcliffe vakti athygli í júlí síðastliðnum þegar þrjár veglegar einkaþotur í eigu hans og félaga hans úr Ineos lentu á Egilsstaðaflugvelli.
Þá eiga félög í eigu Ratcliffe í Veiðiklúbbnum Streng ehf. sem aftur á átta jarðir í Vopnafirði að hluta eða heild. Stutt er síðan félögin keyptu sig inn í Veiðiklúbbinn.
Ekki er nýtt að veiðijarðir í Vopnafirði séu keyptar. Jóhannes Kristinsson, sem kenndur var við Fons og Iceland Express, hefur í rúman áratug verið umsvifamikill í landakaupum í Vopnafirði. Samtals eiga Jóhannes og Ratcliffe meirihluta í félögum sem eiga hluta eða heild í 23 af um 70 jörðum í Vopnafirði.