Breyta gömlu verslunarhúsnæði í miðstöð nýsköpunar

Miklar framkvæmdir eru þessa dagana í gangi vði húsið að Bakkavegi 5 í Neskaupstað, sem áður hýsti verslunina Nesbakka. Verið er að breyta húsinu og byggja við það til að hýsa skrifstofuklasa og miðstöð nýsköpunar í Neskaupstað sem fengið hefur nafnið Múlinn-samvinnuhús.

Hugmyndin um að koma upp skrifstofu- og nýsköpunarklasa í Neskaupstað hefur lengi verið til umræðu og á félagsfundi í SÚN, í janúar árið 2014, var ákveðið að klasi í Neskaupstað væri eitt af framtíðarverkefnum félagsins.

Sama ár vann Jóna Árný Þórðardóttir ítarlega skýrslu um slíkan klasa og í kjölfarið voru klasar bæði á Norðurlandi og suðvesturhorninu heimsóttir. Í framhaldi var leitað eftir heppilegu húsnæði í Neskaupstað og festi SÚN kaup á Bakkavegi 5 þar í bæ, sem er 630 fermetrar, en fljótlega kom í ljós að þörf var á stærra húsnæði. Þá var tekin ákvörðun um að reisa 300 fermetra viðbyggingu við húsið og því verður Múlinn 930 fermetrar þegar hann tekur til starfa.

Í tilkynningu frá SÚN segir að áhugi fyrir væntanlegum klasa hafi reynst mikill reyndist mikill og nú eru einungis örfá rými laus til útleigu í Múlanum. SÚN hefur þegar fengið úthlutað lóð við húsið þannig að mögulegt verður að stækka það enn frekar í framtíðinni ef þörf reynist á.

Austfirska arkitektafyrirtækið Grafít var fengið til að teikna og hanna klasann en Mannvit sá síðan um fullnaðarhönnun. Í lok síðasta árs var Geir Sigurpáll Hlöðversson byggingaverkfræðingur ráðinn til að hafa yfirumsjón með framkvæmdum en þær annast aðallega austfirskir verktakar.

Þau fyrirtæki og stofnanir sem þegar hafa tryggt sér húsnæði í Múlanum eru eftirtalin: Matís, Náttúrustofa Austurlands, Austurbrú, Deloitte, Nox health, Trackwell, Advania, Rauði krossinn, Stapi lífeyrissjóður og Origo.

Rýmin sem fyrirtækin og stofnanirnar taka á leigu eru misjafnlega stór eða allt frá litlum skrifstofurýmum til stærri rýma með rannsóknaaðstöðu. Þá eru í klasanum fundaherbergi, fundarsalur og sameiginlegt rými með eldhúsaðstöðu. Mögulegt verður fyrir einstaklinga sem eru að sinna tímabundnum verkefnum að fá aðstöðu til starfa í klasanum. Gert er ráð fyrir að Múlinn verði allt að 30 manna skapandi vinnustaður. Húsið verður kynt á umhverfisvænan hátt.

Upphaflega var gert ráð fyrir að Múlinn yrði tekinn í notkun seint í sumar eða í haust en framkvæmdir hafa dregist nokkuð. Nú er gert ráð fyrir að klasinn verði tekinn í notkun fyrir lok árs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.