Brýnt að veita strax fjármagni til loðnuleitar

Bæjarráð Fjarðabyggðar krefst þess að aukið fjármagn verði veitt til loðnuleitar. Bæjarstjórinn segir mikilvægt að efla þekkingu á tegundinni sem sé mikilvæg, ekki bara fyrir sveitarfélagið heldur þjóðarbúið allt.

„Okkur finnst fólk vera of rólegt í ljósi þess hve mikilvæg loðnan er fyrir þjóðarbúið,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Bæjarráð sveitarfélagsins samþykkti á fundi sínum í gær þar sem lýst er þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar á Íslandsmiðum. Annað skip Hafrannsóknastofnunar er í viðgerð og ekki útlit fyrir að stofnunin hafi nema eitt skip til að senda til loðnuleitar. „Í ljósi þess hversu mikilvægur veiðistofn loðnan er í íslenskum sjávarútvegi þá er ástand þetta með öllu ólíðandi,“ segir í bókuninni.

Þar er skoðað á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja strax fjármagn til leitar og mælinga svo hægt sé að kanna með útgáfu veiðiheimilda. Engin loðna fannst við rannsóknir í október. Gullver frá Seyðisfirði, skip Síldarvinnslunnar, kom hins vegar til heimahafnar í gærkvöldi eftir fyrsta túr ársins. Aflinn var 95 tonn, mest þorskur en í frétt á vef fyrirtækisins kemur fram að vart hafi verið við loðnu í fisknum sem skipið fékk út af Austfjörðum.

300 milljóna tekjutap í fyrra

Engin loðna veiddist í fyrra, í fyrsta skipti í um hálfa öld, sem kom illa niður á sjávarútvegsfyrirtækjum, starfsmönnum þeirra, sveitarfélögum sem og íbúum í heild. Í skýrslu sem unnin var fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga í fyrra kemur fram að tekjutap þeirra tveggja austfirsku sveitarfélaga þar sem loðna er unnin, Vopnafjarðarhrepps og Fjarðabyggðar, hafi í fyrra numið samanlagt um 300 milljónir króna.

Þar af var tap Fjarðabyggðar 280 milljónir eða 180 milljónir í skatttekjum og 100 milljónir hjá hafnarsjóði. „Sjávarútvegsfyrirtækin hér og þar með starfsfólk þeirra byggja á kolmunna, makríl, síld og loðnu. Það er slæmt ef ein þessara fjögurra stoða bregst og það hefur aftur áhrif á tekjur sveitarfélagsins,“ segir Karl Óttar.

Þá er ætlað að tekjur ríkissjóðs hafi rýrnað um 4-5 milljarða króna í fyrra vegna loðnubrestsins. „Eins og seðlabankastjóri benti nýverið á þá er ekki hægt að keyra hagvöxtinn bara áfram á ferðaþjónustunni heldur skiptir máli að undirstöðuatvinnuvegir, eins og loðnan, skili sér,“ segir Karl Óttar.

Mikilvægt að auka þekkingu á því hvernig loðnan hegðar sér

Þótt bókun bæjarráð sé einkum beint að bráðaaðgerðum, það er að strax verði tryggt fjármagn til leitar fyrir vertíðina sem ætti að vera að hefjast, segir Karl einnig þörf á að fjármagna stærri rannsóknir til lengri tíma.

„Það er full ástæða til að við þekkjum þessa mikilvægu fisktegund, sem við gerum ekki í dag. Við hefðum viljað sjá fjárveitingavaldið veita meiri fjármunum í bæði leit og rannsóknir þannig þekking á stofninum aukist til lengri tíma litið og hegðun stofnsins verði fyrirsjáanlegri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar