Búast má við hnökrum með Bombardier-inn í byrjun

Forstjóri Flugfélags Íslands segir að búast megi við einhverri röskun á flugáætlun fyrst á meðan félagið tekur þrjár nýjar flugvélar í notkun. Hann segir Bombardier Q400 vélarnar uppfylla þær öryggiskröfur sem gerðar séu til flugvéla á Íslandi.


Þrjár vikur eru síðan fyrsta vélin af þremur kom til landsins. Síðan hafa tvær uppákomur raskað ferðum hennar til Egilsstaða.

Fyrst náðist ekki að sýna vélina Austfirðingum eins og auglýst hafði verið. Í síðustu viku var vélinni snúið við eftir flugtak frá Reykjavík þegar vængbörð festustu uppi. Henni var síðan lent á mikilli ferð í Keflavík.

„Vélin er í innleiðingarferli hjá okkur og ekkert óeðlilegt þó það komi nokkur atriði uppá sem þarf að skoða betur og þá getur það leitt til einhverrar röskunar á áætlun eins og þessi endurstilling á vængbörðum hafði því miður í för með sér.

Sama á við um það þegar við ákváðum að sýna vélina fyrir austan þá þurfti að klára ákveðna vinnu á henni sem við urðum að láta ganga fyrir. Þetta er ansi umfangsmikil innleiðing fyrir okkur og því mátti búast við að einhver röskun yrði í byrjun en almennt gengur þetta mjög vel,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélagsins.

Atvikið í Egilsstaðafluginu vakti upp talsverða umræðu um öryggi vélanna einkum vegna frétta um að SAS hefði hætt að nota vélarnar árið 2007 eftir bilun í lendingarbúnaði þriggja véla á einum mánuði. Fleiri atvik komu upp víðar um heim og svo fór að Bombardier endurskoðaði hönnun lendingarbúnaðarins auk þess sem vélar í notkun voru skoðaðar.

Árni segir vandræði SAS hafa verið vegna galla í lendingarbúnaði en viðhaldskerfi vélanna hafi verið breytt og vandræðin ekki gert vart við sig síðan.

„Þessar vélar eru í fullri framleiðslu í dag og í notkun hjá stórum sem litlum flugfélögum í Evrópu sem víðar. Þannig hefur norska flugfélagið Wideroe sem var dótturfyrirtæki SAS notað þessar vélar frá upphafi og hætti aldrei að nota þær þó SAS hafi gert það. Flybe í Bretlandi er með yfir 50 svona vélar í rekstri og svo mætti lengi telja. Þetta eru einfaldlega mjög góðar vélar og hagkvæmar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.