Busavígslur: Ofbeldi og niðurlæging eða skemmtun fyrir alla?

busun_va_2012_04.jpg

Ekki eru allir á eitt sáttir um þær hefðir sem víða tíðkast í framhaldsskólum landsins við busavígslur. Deilt er um hvort þær séu skemmtun eða andlegt ofbeldi og niðurlæging. Dæmi eru um að nemendur hafi heimtað harðari busanir þegar búið hafi verið að róa þær niður.

 

„Úti til sveita er enn allt í rugli,“ ritar Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, um frétt Austurfréttar  [sem hann ranglega eignar Austurglugganum] frá því á mánudag um busun í Verkmenntaskóla Austurlands. Hann segir sagt „með velþóknun frá ofbeldi og niðurlægingu“ við VA. „Þar eystra virðist vanþroski orðinn að almennu skemmtiatriði fyrir fábjána.“ 

Gísli Ásgeirsson, þýðandi, tekur í svipaðan streng í færslu á bloggsíðu sinni. „Þessi lýsing er römmuð inn með glaðlegu og jákvæðu orðalagi. Fyrir austan hefur sem sagt viðrað vel til ofbeldis og misþyrminga og það er klætt í skemmtilegan búning. Öllum fannst gaman, einkum þeim sem píndu og þeir sem voru píndir, voru himinlifandi. Ekki er hægt að skilja lýsinguna öðru vísi. Undir merkjum busavígslu er flest leyfilegt. Annars hefði lögregla verið kölluð til.“

Í nýrri færslu segist Gísli hafa gert óformlega könnun og ekki fundið neinn fullorðinn sem hafði gaman af sínu „inntökuofbeldi. Það þarf sterk busabein til að neita að taka þátt í busavígslu og enginn vill eiga einelti á hættu á fyrsta árinu sínu í framhaldsskóla. Mig grunar að margir harki af sér og láti þetta yfir sig ganga.“

„Ég var busaður og þótti það ógeðslegt en jafnframt mjög gaman“

Nemendur Verkmenntaskólann hafa svarað Gísla og varið bæði busunina og skólann sinn. Þeir benda Gísla til dæmis á að hann hafi ekki verið viðstaddur vígsluathöfnina og hafi litla hugmynd um hvað hann sé að tala. Þá hafi enginn verið neyddur til að taka þátt í athöfninni, nemendurnir hafi getað hafnað þrautunum og nokkrir gert það vandkvæðalaust.

„Ég hefði aldrei fyrir mitt litla líf viljað sleppa busuninni, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég gerði á minni framhaldsskólagöngu,“ skrifar Kolbrún Rós sem var böðull í VA í fyrra. Hún vísar til könnunar sem hún gerði á busunum í fyrra sem bendir til ánægju þeirra með busunina.

„Ég var busaður og þótti það ógeðslegt en jafnframt mjög gaman, hefði ekki viljað sleppa því. Þar var enginn niðurlægður og allir skemmtu sér vel. Nokkrir vildu ekki taka þátt í þessu og það var bara allt í lagi, þeir fengu það,“ svarar Sindri Már sem virðist hafa verið í busahópnum í ár.

Vígslurnar víða lagðar af

Misjafnir siðir tíðkast við busavígslur víða um land. Olga Lísa Garðarsdóttir, sem var áður skólameistari VA, uppskar misjöfn viðbrögð þegar hún tilkynnti það nýverið að engin busun yrði í Fjölbrautaskólaskóla Suðurlands í ár. Þar hafa busanirnar þótt keyra um þverbak undanfarin ár.

Í Menntaskólanum viðgangast tolleringar, sem stundum hafa endað illa þegar eldri bekkingar hafa misst þá yngri. Í Verzlunarskóla Íslands og Verkmenntaskólanum á Akureyri er farið í nýnemaferðir. Í Menntaskólanum á Ísafirði hefur gengið á ýmsu, þar voru nýnemar sendir heim í vikunni eftir að nokkrir böðlar höfðu hellt lýsi yfir höfuð þeirra.

Austfirskir busar heimta „almennilegar“ busanir

Busanir í Verkmenntaskóla Austurlands lágu niðri í þó nokkur ár. Stutt ár eru síðan þær voru teknar upp að nýju að ósk nemenda.

Busun hófst í Menntaskólanum á Egilsstöðum í gær. Þá áttu strákar að mæta í stelpufötum á röngunni og stelpur í strákafötum á röngunni. Aðalbusunin er á föstudaginn þegar farið er með hópinn í gönguferð um Egilsstaði og endað í hinni alræmdu drullubraut.

Þar hafa busanirnar nokkrum sinnum verið róaaðar niður í gegnum tíðina. Fræg er busun 1983 árgangsins sem fólst í siglinu með Lagarfljótsorminum inn í Atlavík, gleði þar og grænleitum graut um borð í skipinu. Fjöldi busa það ár tók sig til og kvartaði undan „lélegri busun.“ Drullubrautin var þá endurvakin og hefur haldist síðan.

Því er ljóst að busanirnar halda áfram að vera umdeildar, hvort sem þær eru hertar, mildaðar, leyfðar eða aflagðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar