Býður sig fram fyrir tvo flokka

Í dag birti Flokkur fólksins framboðslista sinn í Norðvesturkjördæmi. Athygli vekur að Ágúst Heiðar Ólafsson, kerfóðrari í Norðuráli, er í öðru sæti á þeim framboðslista en hann situr einnig í fjórtánda sæti á framboðslista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.


Eins og sakir standa er hann því á tveimur framboðslistum, hjá sitthvorum flokknum í sitthvoru kjördæminu.


Í samtali við Austurfrétt segir Ágúst Heiðar hafa þegið sæti hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum fyrir nokkru þegar Guðmundur Franklín setti sig í samband við hann. „Guðmundur Franklín spurði í mig persónu hvort ég hefði áhuga á að taka 14 sæti og ég sagði já. Hann vissi að ég bjó á Akranes þannig ég tel það hafi bara verið mannleg mistök að setja mig á lista fyrir Norðausturkjördæmið,“ segir Ágúst í samtali við Austurfrétt. Hann segist vera í Flokki fólksins og hann ætli sér að vera í framboði þar en ekki hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum.


Guðmundur Franklín, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, vissi ekkert um málið þegar Austurfrétt hafði samband við hann fyrir skömmu. Hann sagðist ætla að kanna málið en sagði að þar sem Ágúst hafi skrifað sig fyrir framboði í Frjálslynda lýðræðisflokknum fyrir löngu væri framboð hans fyrir Flokk fólksins ólöglegt. Skila þarf inn framboðslistum fyrir hádegi á morgun.

 

Uppfært:

Guðmundur Franklín segir að Ágúst muni vera í framboði fyrir Flokk fólksins. „Þetta er með ólíkindum. Þetta er enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins,“ segir Guðmundur og bætir því við að sonur hans ætli að hlaupa í skarðið á lista flokksins í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.