Byrjað að slátra sýktum gripum frá Egilsstöðum
Byrjað er að slátra nautgripum sem taldir eru hafa sýkst af smitandi barkabólgu á Egilsstaðabúinu á Völlum. Tólf gripir voru sendir í slátrun í síðustu viku.
Þetta staðfesti Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, við Austurfrétt í dag. Ríflega þrjátíu kýr reyndust sýktar á bænum. Afgangurinn verður tekinn innan skamms.
Halldór sagði annars að þessa dagana væri verið að vinna í samningum um tjónabætur eins og venjan væri í tilfellum sem þessu.
Barkabólgan er í flokki A-sjúkdóma en í honum eru þeir búfjársjúkdómar sem taldir eru hættulegastir. Slátra þarf öllum jákvæðum gripum á búinu og á Fljótsbakka í Eiðaþinghá þar sem veiran greindist í einum grip en ekki verður gripið til allsherjarniðurskurðar á bæjunum.