Byrja að steypa Borgarfjarðarveginn: Gaman að sjá langþráð vegagerðarskilti – Myndir

Íbúar á Borgarfirði eystra söfnuðust saman í Njarðvíkurskriðum í gær og byrjuðu að steypa veginn þar um. Gjörningurinn var til að minna á að enn eru 28 km ómalbikaðir milli Borgarfjarðar og næsta þéttbýlisstaðar, Egilsstaða.

„Borgfirðingar eru búnir að fá nóg af aðgerðaleysi stjórnvalda svo við tókum málin í okkar eigin hendur. Við komum bara með steypu og skvettum henni á veginn. Þar með eru framkvæmdir hafnar. Það er gaman að sjá langþráð vegagerðarskilti komið upp,“ segir Eyþór Stefánsson, íbúi á Borgarfirði.

Borgfirðingar hafa séð fyrirheit um framkvæmdir á samgönguáætlunum undanfarinna ára en þeim hafa ekki fylgt efndir á fjárlögum hvers árs eða fjárlagaáætlun ríkisins til lengri tíma. Framundan eru umræður um fjárlagaáætlunina og með gjörningnum vilja Borgfirðingar minna á sig.

Vegurinn þolir ekki umferðina

Leiðin til Borgarfjarðar liggur um Vatnsskarð eystra og hefur umferðin um það meira en tvöfaldast á tíu árum samkvæmt tölum Vegagerðarinnar. Árið 2007 fóru 70 bílar þar um á dag en í fyrra voru þeir 145 samkvæmt tölum Vegagerðarinnar. Aukningin er hins vegar nær öll bundin við sumarið, árið 2007 voru bílarnir 134 á dag en 310 í fyrra. Á veturna hefur umferðin staðið í stað.

Sumarumferðin er hins vegar meiri en svo að malarvegurinn þoli hana. „Vegamálastjóri hefur sagt að ekki sé hægt að halda við malarvegi sem um fari yfir 300 bílar á dag,“ segir Eyþór.

„Vegagerðin vinnur stanslaust í að reyna halda veginum færum en það tekst ekki. Hann er ófær í kringum Bræðslu ef það rignir,“ bætir Helgi Hlynur Ásgrímsson við.

„Þegar vegurinn er hvað verstur keyrum við á 20 km hraða til að eyðileggja ekki bílana okkar. Í fyrrasumar var dýpsta holan á veginum 40 sm djúp, auðvitað skemmir það bíla að keyra ofan í slíka holu. Við íbúarnir kunnum hins vegar að keyra leiðina.“

Bílaleigur telja vegin ótraustan

Verkefninu Brothættar byggðir var ýtt úr vör á Borgarfirði fyrir rúmri viku með íbúaþingi. Samgöngumál voru íbúum þar ofarlega í huga og eftir þingið ákváðu þeir að láta verkin tala. „Það blés okkur eldmóð svo við gengum á bæi og mönnuðum steypuvinnuna. Mér sýnist langstærstur hluti bæjarins vera mættur, við ætlum ekki að gefast upp,“ segir Eyþór.

Heimamenn segja lélegan veg bæði hindra atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun. Auki útgerðar treystir byggðin á ferðamenn og hugmyndir hafa verið uppi um vatnverksmiðju. En lélegur vegur hamlar ferðaþjónustunni.

„Bílaleigur banna sumum að koma hingað, ökumenn fá skilti á skjáinn um að þeir séu ótryggðir þegar þeir eru komnir á veginn til okkar,“ segir Helgi Hlynur.

36 sentímetrar á dag

Vegurinn skiptir líka máli fyrir þjónustu, engin verslun eða heilbrigðisþjónusta er lengur að staðaldri á Borgarfirði. Þá benda Borgfirðingar líka á að þeir séu eina byggða þéttbýlið í landinu sem ekki hafi klæddan veg að næsta þjónustukjarna.

„Þetta dregur úr lífsgæðum okkar. Okkur fækkar og fækkar því við fáum ekki veg. Leiðin í Egilsstaði er 70 km löng og frá því að byrjað var að malbika hafa verið klæddir að meðaltali 36 sm á dag. Það er of lengi gert,“ segir Helgi Hlynur.

Í fyrra gripu íbúar í Djúpavogshreppi á það ráð að loka Hringveginum í Berufirði til að knýja á um úrbætur. Slík úrræði eru fjær Borgfirðingum. „Við höfum ekki þann þrýsting að geta lokað veginum. Við erum útkjálki og umferðin ekki mikil á veturna því vegurinn er svo vondur.“

„Við erum bara að biðja um bundið slitlag“

Hreppsnefnd Borgarfjarðar hefur að undanförnu lagt sérstaka áherslu á veginn um Njarðvíkurskriður þar sem á næstunni er áætlað að leggja ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn um Skriðurnar til Njarðvíkur. Vonast hefur verið til að hægt væri að laga veginn um leið til að forðast ítrekað rót. Vegurinn um skriðurnar er 3,2 km að lengd og áætlaður kostnaður við endurbyggingu hans 220 milljónir.

Að auki er 10,2 km kafli frá Unaós til Njarðvíkur yfir Vatnsskarð óklæddur og loks 14,7 km milli Eiða og Laufáss í Hjaltastaðaþinghá.

Vegagerðin hefur áætlað að 1,5 milljarð kosti að endurbyggja veginn allan í 8 metra breidd. Borgfirðingar benda á að undanþágur hafi verið veittar til að hafa umferðarminni vegi 6,5 metra á breidd. Slíkt geti minnkað kostnaðinn um allt að helming. „Við erum ekki að biðja um mikið, við erum bara að biðja um bundið slitlag,“ segir Eyþór.

Nú er beðið eftir viðbrögðum við gjörningnum í gær. „Ég sá að einhverjir þingmenn Pírata voru að ræða málið sín á milli á Facebook, ég þakka þeim fyrir það. Hins vegar er spurningin með þessa aumu þingmenn í okkar fjórðungi, við erum kannski ekki nógu nálægt Akureyri til að þeir fari að gera eitthvað,“ segir Eyþór að lokum.

Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0005 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0012 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0014 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0017 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0022 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0024 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0028 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0033 We
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0036 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0038 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0045 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0058 Web
Njardvikurskridur Gjorningur Feb18 0066 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar