Byrjað að leggja ljósleiðara á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík um leið og vorar

Míla hefur hafið undirbúning að því að leggja ljósleiðara í þau íbúðarhús sem eftir eru í Fjarðabyggð og áætlar framkvæmdir um leið og vorar. Með styrk frá ríkinu er hægt að ljúka við ljósleiðaravæðingu í þéttbýli sveitarfélagsins á næstu tveimur árum.

Áformin voru kynnt á íbúafundi á Stöðvarfirði á mánudag en þau eru afrakstur flýtifjármagns frá innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu til sveitarfélaga í haust. Í kjölfarið samdi Fjarðabyggð við Mílu um að leggja ljósleiðarann.

Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu, sagði að byrjað væri að skoða hús á Breiðdalsvík og nú Stöðvarfirði til að finna út hvar sé best að staðsetja tengikassa við hús og finna bestu leiðina fyrir ljósleiðarann. Lokið verður í þessari viku við að skoða húsin.

Tengt um verslunarmannahelgina


Byrjað verður að grafa þegar frost fer úr jörðu, trúlega um mánaðamót apríl/maí. Miðað við það er stefnt að því að tengingar verði klárar um verslunarmannahelgina. Hver húseigandi þarf síðan að panta viðeigandi þjónustu hjá sínu fjarskiptafyrirtæki í kjölfarið. Reiknað er með að í fyrst geti notendur á þessum stöðum fengið 1 gb tengingu sem síðar tífaldist.

Erik sagði bæði Mílu og fjarskiptafyrirtækin leggja á það áherslu við undirverktaka að ganga vel frá eftir framkvæmdirnar. Annars yrðu viðskiptavinir óánægðir sem bitnaði á þeim. Leiðir fyrir skurði verða valdar með húseigendum og reynt að nýta lagnir þar sem hægt er.

Ekkert tengigjald


Á Stöðvarfirði eru um 88 hús og er ekkert þeirra tengt með ljósleiðara. Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, sagði fundinn haldinn á Stöðvarfirði því staðurinn hefði helst orðið útundan. Það væri þar með það samfélag sem ætti mest undir í uppbyggingunni og þess vegna væri byrjað þar.

Húseigendur voru hvattir til að nýta tækifærið þar sem tengigjald er fellt niður. Fyrirtæki þurfa að greiða það en þeir voru sömuleiðis hvattir til að panta tengingar því hagræði er að leggja í sem flest hús í þorpinu í einu.

Í öðrum byggðakjörnum Fjarðabyggðar eru 33-40% heimila með ljósleiðaratengingar. Stefnt er að því að tengja hús á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað fyrir lok árs 2025 og framkvæmdum verði fullu lokið með tengingum á Reyðarfirði og Eskifirði árið 2026. Ragnar sagði að verkinu yrði lokið á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík áður en farið yrði á aðra staði, nema þar sem tækifæri skapaðist til að leggja ljósleiðara samhliða öðrum framkvæmdum. Sveitarfélagið ætlar að halda úti sérstakri upplýsingasíðu um verkefnið.

Eykur atvinnumöguleika


Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnastjóri byggðaþróunarverkefnisins Sterkari Stöðvarfjarðar, sagði að fljótlega eftir að verkefnið hófst árið 2022 hefði komið í ljós að hægar nettengingar á staðnum kæmu í veg fyrir að fólk liti á staðinn sem vænlegan búsetukost eða fyrirtæki veldu að starfa þar.

Hún nefndi að þar sé þó fólk sem starfi fyrir fyrirtæki erlendis eða henni við háskóla en vandræði hafi komið upp þegar fleiri en einn þurfi að deila nettengingu í sameiginlegu rými. Í Sköpunarmiðstöðinni hefur verið tekið frá rými ætlað fjarvinnu. Valborg sagði að nú gæfist væri til að markaðssetja það betur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar