Christoph Merschbrock ráðinn verkefnastjóri Háskólaseturs Austfjarða

Gengið hefur verið frá ráðningu Christoph Merschbrock sem verkefnastjóra Háskólaseturs Austfjarða. Christoph kemur til starfa 1. ágúst næstkomandi.

Christoph er fæddur í Þýskalandi og lauk Dipl.-Ing. í byggingartæknifræði frá Hochschule Ostwestfalen-Lippe þar í landi og meistaragráðu í byggingaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið doktorsgráðu í upplýsingakerfum frá Háskólanum í Agder í Noregi.

Christoph er lektor hjá Háskólanum í Jönköping í Svíþjóð en þar áður var hann lektor hjá Oslo and Akershus University College. Christoph hefur starfað sem tæknimaður og verkefnastjóri hjá Ístaki á árunum 2005-2010.

Auk þess að hafa reynslu frá háskólaumhverfinu í Noregi og Svíþjóð þá hefur hann stundað nám á Íslandi og í Þýskalandi. Samhliða starfi sínu sem verkefnastjóri Háskólaseturs Austfjarða mun Christoph sinna rannsóknarstörfum og kennslu við Jönköping háskólann í Svíþjóð.

Eiginkona hans er Norðfirðingurinn Svala Skúladóttir.

Samkvæmt auglýsingu er verkefnastjóranum ætlað að greina þörf á háskólasetri á Austurlandi og leiða mótun framtíðarsýnar fyrir svæðisbundna háskólamenntun. Verkefnastjórinn annast einnig einnig daglegan rekstur á verkefnum vegna uppbyggingar háskólasetursins.

„Christoph hefur mjög góða menntun sem nýtist einkar vel í starfinu ásamt því að hafa þekkingu og reynslu af evrópsku háskólaumhverfi.

Þá er reynsla og þekking hans af kennslu, fræði- og rannsóknarstörfum mikilvæg verkefninu ásamt þeirri reynslu sem Christoph hefur af verkefnastjórnun. Fyrir hönd stýrihópsins bíð ég Christoph hjartanlega velkominn til starfa við að koma háskólasetri Austfirðinga á fót,“ segir Páll Björgin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar í tilkynningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.